fbpx
200x200

Styrktarfélagið Broskallar hjálpar nemendum á fátækustu svæðum í Afríku að komast í háskóla með því að veita aðgang að kennslukerfi sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað. Hringfarinn Kristján Gíslason styrkti verkefnið um 5 milljónir króna og hefur stuðlað að aðkomu fleiri íslenskra samtaka. Broskallar vinnur nú m.a. með ABC barnahjálp og hefur skóli á okkar vegum fullan aðgang að efni kennslukerfisins í gegnum spjaldtölvur sem nemendur fá frá styrktarfélaginu fyrir tilstilli Hringfarans.

Kennslukerfið nefnist tutor-web og hefur að geyma kennsluefni, m.a. í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði, ásamt æfingum sem aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefnið. Kerfið var þróað af þeim Gunnari Stefánssyni, prófessor við Raunvísindadeild HÍ, og Önnu Helgu Jónsdóttur, dósent við sömu deild, í samstarfi við tölvunarfræðinga. Það hefur undanfarinn áratug verið nýtt í tölfræði- og stærðfræðikennslu bæði við Háskóla Íslands og í framhaldsskólum hér á landi.

Menntun í ferðatösku

Þeir nemendur sem standa sig vel vinna sér inn rafmyntina „Broskalla“ (e. SmileyCoin) og er hún geymd í rafrænu veski og hægt að nýta til að kaupa vöru eða þjónustu af ýmsu tagi. Starfsemin í Kenýa fer fram í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ en það inniheldur spjaldtölvur fyrir nemendur og þjón (e. server) sem geymir námsefni tutor-web. Kristján hefur staðið að baki kostnaðar við kaup á spjaldtölvum fyrir heimavist ABC skólans í Naíróbí í Kenýa. Verkefnið hefur gengið vel og nemendur hafa sýnt mikinn áhuga á að standa sig vel og leysa verkefnin. Fyrstu nemendurnir hafa þegar útskrifast og fengu þeir spjaldtölvu í verðlaun.

Leyfum orðum nokkurra þeirra að njóta sín.

Naomi Ndela
Ernest Nderitu
Blair Moel
James Nganga
Rose Wanjiru
Teresiah Nduku

Verkefnið virtist yfirþyrmandi

„Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allt sem þetta framtak hefur fært mér. Verkefnið hefur hvatt mig til dáða“, segir Naomi Ndela. Henni þótti verkefnið á tímum hreint yfirþyrmandi og ákvað að hætta í smá tíma. „Síðan náði ég áttum, hysjaði upp um mig buxurnar og lagði mig alla í þetta,“ segir hún og þegar rafmyntirnar fjölguðu sér kom meiri alvara í þetta og möguleikarnir á að vinna spjaldtölvu urðu raunhæfari.

Hafði aldrei fyrr fengið gjafir

„Ég er þakklátur fyrir þetta framtak. Þetta kennslukerfi hefur hjálpað mér og gefið mér mikla gjöf. Ég hafði hingað til aldrei fengið gjafir fyrr“, segir Ernest Nderitu. Að hans sögn var mjög þægilegt að vinna með kerfið og það hjálpaði mikið til við stærðfræði. Áður fyrr var hann að leysa rétt í kringum 40% verkefnanna en nú sé hann að jafnaði að fá í kringum 80% á prófum. Fyrst um sinn vissi Ernest ekki hvernig hann ætti að leysa stærðfræðiþrautir á spjaldtölvunni en fljótlega náði hann tökum á þessu og fór að safna rafmyntum. Samnemendur hans og systur hans höfðu þó litla trú á því að hann gæti haldið þessum árangri til streitu en annað kom á daginn. „Ég ákvað að sýna þeim að ég gæti þetta og ég vil þakka öllum sem höfðu trú á mér.“

Krafðist mikillar einbeitingar

„Ég er þakklátur fyrir þetta verkefni og þeim sem fann upp tutor-web en það kerfi hefur hjálpað okkur mikið með stærðfræði,“ segir Blair Moel. Að hans sögn hefur hann nú skýrari sýn á framtíðina og hann hefur einsett sér að vinna sér inn að minnsta kosti 100.000 broskalla daglega. „Það tók mig nokkra mánuði en ég náði markmiði mínu. Sumar æfingarnar voru mjög erfiðar og kröfðust mikillar einbeitingar en þetta hafðist allt þökk sé tutor-web“.

Blessun að eiga spjaldtölvu

„Stærðfræði hefur veitt mér eitthvað í lífi mínu. Ég vil þakka þeirri manneskju sem fann upp á þessu verkefni og fékk jafnframt þá hugmynd að koma með það til okkar í Kenýa,“ segir James Nganga. James hafði smá efasemdir í byrjun en þegar hann byrjaði að nota spjaldtölvuna vann hann sér inn 288.000 broskalla á fyrsta deginum og það var nógu mikil hvatning fyrir hann að halda áfram. „Nú á ég mína eigin spjaldtölvu og það er mikil blessun. Á árum áður hefði ég aldrei ímyndað mér að ég myndi eignast slíkt. Ég þakka þér prófessor Gunnar fyrir að hafa kynnt tutor-web fyrir mér.“

Tók þessu af alvöru

„Tutor-web hjálpar mikið og hefur mikið lærdómsgildi á marga vegu. Það er gott að öllu leyti að hafa spjaldtölvu í skólanum og hún auðveldar alla úrvinnslu í stærðfræði,“ segir Rose Wanjiru. Þegar hún byrjaði að nota kennslukerfið var hún vongóð um að hún myndi eignast sína eigin spjaldtölvu. „Svo fékk ég bara 2010 broskalla og óttaðist að ég myndi ekki ná markmiði mínu. Ég fór þá að taka þessu verkefni af meiri alvöru og vann mér inn mun fleiri broskalla. Ég fékk mikla hvatningu frá samnemendum og ég náði að vinna mér inn spjaldtölvuna.“

Náði að hvetja sig áfram

„Þetta kennslukerfi hefur hjálpað mörgum í stærðfræði og gert þeim kleift að eignast hluti sem þau hefðu annars ekki getað orðið sé út um,“ segir Teresiah Nduku Nah. Hún segir það hafa verið vissa áskorun að vera með og á stundum hafi þetta verið erfitt. „Okkur var sagt að ef við næðum milljón brosköllum þá myndum við eignast spjaldtölvu. Ég hafði mikinn áhuga á stærðfræði en stundum fannst mér erfitt að safna þessum brosköllum. Ég var frekar vonlítil um tíma en ég náði að hvetja sjálfa mig nógu mikið áfram.“

Skildu eftir svar