33.000 barnahjónabönd á dag - ABC barnahjálp

33.000 barnahjónabönd á dag

Eins og staðan er í dag er ein af hverjum fjórum unglingsstúlkum í hjónabandi í Vestur- og Mið-Afríku. Árlega ganga tólf milljónir stúlkna yngri en 18 ára í hjónaband. Það eru tæplega 33.000 stúlkur á dag eða um 23 stúlkur á hverri mínútu alla daga ársins. Standi tíðni barnahjónabanda í stað munu rúmlega 150 milljónir stúlkna á barnsaldri ganga í hjónaband fyrir árið 2030.

Þrátt fyrir að hjónabönd barna séu bönnuð með lögum um allan heim eru þau býsna algeng. Á heimsvísu gengur ein af hverjum fimm stúlkum í hjónaband eða er komin í formlegt samband áður en hún nær átján ára aldri. Í þróunarlöndum tvöfaldast talan en þar hafa fjörutíu prósent stúlkna gengið í hjónaband fyrir átján ára aldur og tólf prósent áður en þær ná fimmtán ára aldri.

Þó svo að orðið barnahjónaband sé notað alla jafna er iðulega átt við barnabrúðir. Umfjöllunin hér á einkum við um stúlkur og þann mikla vanda sem að þeim steðjar þegar þær ganga svo ungar í hjónaband. Engu að síður er rétt að minnast á að samkvæmt þeim gögnum sem Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) hefur aflað um hjónabönd í 82 fátækustu löndum heims kvænist einn af hverjum 25 drengjum fyrir 18 ára aldur. Það er hins vegar nánast óþekkt að þeir gangi í hjónaband áður en þeir ná fimmtán ára aldri. Því miður er raunin, eins og staðan er í dag, allt önnur hvað stúlkur snertir.

Réttur stúlkna til að velja sér maka og ráða því hvenær þær ganga í hjónaband er að engu gerður þegar þær giftast á barnsaldri. Flestir geta verið sammála um að hjónabandið er æði stór skuldbinding og meiriháttar ákvörðun í lífi hverrar manneskju. Hjónabandið ætti að vera val hvers og eins og ákvörðun sem tekin er óþvingað.

Þó svo að mörg landanna sem um ræðir séu til dæmis aðilar að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna viðgengst enn að börn gangi í hjónaband. Það gengur sannarlega í berhögg við sáttmálann og þá skilgreiningu að barn sé einstaklingur yngri en átján ára.

Staðan í þeim löndum sem ABC starfar

ABC barnahjálp starfar nú í sjö löndum: Bangladess, Búrkína Fasó, Filippseyjum, Indlandi, Kenýa, Pakistan og Úganda. Sé litið til þessara sjö landa má sjá að barnahjónabönd viðgangast í þeim öllum en verst er staðan hjá stúlkunum í Bangladess. Í skýrslu UNICEF frá nóvember 2017 kemur fram að 22% stúlkna í þar í landi gangi í hjónaband áður en þær ná 15 ára aldri. 59% stúlkna undir 18 ára eru í hjónabandi. Þetta er með því mesta sem þekkist í heiminum.

Nokkuð fast á hæla Bangladess kemur Búrkína Fasó þar sem 10% stúlkna eru giftar fyrir 15 ára aldur og 52% innan við 18 ára. Í Úganda er talan sú sama fyrir stúlkur undir 15 ára, þ.e. 10%, og 40% fyrir stúlkur innan við 18 ára. Á Indlandi eru 7% stúlkna gengnar í hjónaband áður en þær ná 15 ára aldri og 27% fyrir 18 ára aldurinn. Þar á eftir kemur Kenýa þar sem 4% stúlkna yngri en 15 ára eru í hjónabandi og 23% yngri en 18 ára. Í Pakistan hafa 3% stúlkna innan 15 ára gengið í hjónaband og 21% þeirra sem yngri eru en 18 ára. Filippseyjar eru með lægstu tölurnar af löndunum sjö. Þar eru 2% stúlkna yngri en 15 ára í hjónabandi og 15% stúlkna yngri en 18 ára.

Það getur verið erfitt að átta sig á samhengi hlutanna þegar horft er á prósentuhlutfall svo fjölmennra þjóða. Við getum tekið dæmi frá Íslandi í veikri tilraun til að setja þetta í eitthvert samhengi. Á vef Hagstofu Íslands er hægt að nálgast tölur yfir aldur íslenskra brúðhjóna frá árinu 1971 til 2011. Af þeim rúmlega 32.000 sem gengu í hjónaband hér á landi á þessu 11 ára tímabili voru 184 brúðir 19 ára eða yngri. 35 brúðgumar voru 19 ára eða yngri. Hjónaefni þurfa lögum samkvæmt að hafa náð 18 ára aldri en dómsmálaráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap en ekki er hægt að ráða af tölum Hagstofunnar hversu oft það var gert.

En snúum okkur aftur að barnahjónaböndum og stóru spurningunni: Hvaða ástæður búa að baki? Margar ástæður eru fyrir því að stúlkur á barnsaldri ganga í hjónaband en hvernig sem á það er litið er brot á mannréttindum að þvinga börn í hjónaband. Oftar en ekki er stofnað til slíks hjónabands af sárri fátækt en einnig er útbreidd skoðun að hjónaband geti á einhvern hátt varið heiður fjölskyldunnar, styðji félagsleg norm eða siði auk þess sem barnahjónabönd geta átt sér rætur í trúarreglum þar sem þau viðgangast hvað sem mannréttindum líður.

Í milljónum tilvika telja foreldrar ungra stúlkna hjónaband vera eina möguleikann fyrir dætur þeirra. Í hjónabandi séu stúlkur betur varðar fyrir kynferðisofbeldi. Dæmin hafa sýnt að á stríðstímum fjölgar barnahjónaböndum, að því er fram kemur í upplýsingum Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Bæði vegna þess að fjölskyldur búa við fjárhagslegt óöryggi og ótta við kynferðisofbeldi í garð dætranna. Hins vegar er raunin sú að upplifun barnungra stúlkna af hjónabandi er í mörgum tilvikum mikið ofbeldi. Líkamlegt-, kynferðislegt- og andlegt ofbeldi.

Önnur ástæða fyrir barnahjónabandi sem ekki má líta framhjá getur verið sú að í mörgum löndum þykir mikil hneisa ef unglingsstúlka verður barnshafandi utan hjónabands. Þær eru í sumum tilvikum jafnvel þvingaðar til að giftast nauðgurum sínum, hafi þær orðið barnshafandi eftir nauðgun, til að bjarga heiðri fjölskyldunnar. Þó er það ekki alltaf svo að ungar stúlkur séu þvingaðar til að ganga í hjónaband af foreldrum. Stúlkurnar sjálfar vilja oft giftast unnusta sínum og sýna með þeim hætti fram á eigið sjálfstæði, komast að heiman, flýja fátækt eða jafnvel ofbeldi. Strangar reglur þar sem blátt bann er lagt við kynlífi fyrir hjónaband getur líka verið ein af ástæðunum. Engu að síður er það ekki frjálst val sem drífur daglega um 33.000 stúlkur yngri en 18 ára í hjónaband. Dæmin sýna að þegar stúlkur hafa frjálst val þá giftast þær þegar þær eru orðnar eldri.

Girls Not Brides

Það er rík ástæða fyrir því að ýmis alþjóðleg samtök og stofnanir berjast gegn barnahjónabandi. Afleiðingar barnahjónabands eru nefnilega margþættar. Stúlkurnar eignast börn afar ungar, þær einangrast, þær hætta í námi og eiga þar af leiðandi síður möguleika á að komast út á vinnumarkaðinn sem eykur hættuna á heimilisofbeldi, eins og fram kemur í nýlegri skýrslu frá UNICEF.

Það er meðal annars af þessum ástæðum sem alþjóðlegu samtökin Girls Not Brides hafa það að meginmarkmiði að binda enda á barnahjónabönd. Yfir 900 mannúðarsamtök í 95 löndum tilheyra Girls Not Brides og er fræðsla og vitundarvakning með samvinnu ýmissa stofnana grunnstoðin í hugmyndafræði þeirra.

Núna stendur yfir alþjóðleg ráðstefna samtakanna og fer hún fram í Malasíu. Ráðstefnan hófst í gær, 25. júní, og lýkur á morgun. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með beinni útsendingu frá ráðstefnunni en það er gert með því að skrá sig hér .

Þetta er í annað sinn sem samtökin standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu af þessari stærðargráðu um barnahjónabönd og býr gríðarleg vinna að baki. Teymi sérfræðinga og baráttufólks hvaðanæva að úr heiminum leggja lóð sín á vogarskálina.

Í ABC skólanum Heimili Friðar í Bangladess.

Hvernig menntun getur haft áhrif

Þeir sem þekkja til starfs ABC barnahjálpar vita að það snýst um að gefa fátækum börnum tækifæri til menntunar og að hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim menntun og heimili. Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar en menntun er líka mikilvægur þáttur þegar kemur að barnahjónaböndum.

Í nýlegri skýrslu sem nálgast má hér er fjallað nokkuð ítarlega um hvernig menntun stúlkna getur haft áhrif á barnahjónabönd og jafnvel komið í veg fyrir þau. Mikilvægi þess að fjárfesta í menntun stúlkna er undirstrikað en jafnframt ljósi varpað á ástæður þess að menntun þeirra er ekki alltaf í forgangi.

Margt hefur áhrif á að stúlkur fá síður að fara í skóla í þeim löndum sem barnahjónabönd eru algeng. Sumir foreldrar sjá ekki haginn í því að senda dætur í skóla og á það einkum við þar sem ríkjandi gildi eru þau að karlar vinni úti en konur heima. Tímanum sem varið er í skólanum mætti verja við þrif, vinnu eða að gæta yngri systkina. Einnig telja sumir foreldrar það arðbærara að gifta dæturnar en að senda þær í skóla auk þess sem þeir trúa því að fjárhagslegt öryggi dætranna sé betur tryggt með hjónabandi en námi.

Með því að sýna fram á hverju menntun getur skilað má smám saman breyta ríkjandi viðhorfi til menntunar stúlkna. Möguleikar á góðri vinnu að námi loknu aukast til muna, launin verða hærri og bæði stúlkurnar og fjölskyldur þeirra geta hugað betur að heilsunni. Að mati skýrsluhöfundar er nauðsynlegt að kynna betur fyrir foreldrum aðra kosti en hjónaband fyrir dætur þeirra. Ef foreldrar eru meðvitaðir um aðra möguleika eru þeir líklegri til að fjárfesta í menntun dætra sinna.

Í mörgum tilvikum eru aðstæður fjölskyldna svo bágar að þær eiga ekki möguleika á að senda börnin í skóla og þar koma samtök á borð við ABC barnahjálp í mörgum tilvikum til sögunnar. Fyrir þá sem vilja lesa meira um hvernig nám getur rofið vítahring fátæktar og dregið úr barnahjónaböndum er bent á skýrsluna sem vísað er í að ofan og skýrslu Alþjóðabankans frá júní 2017 um fjárhagsleg áhrif barnahjónabanda.

Sú staðreynd að mörg hundruð stúlkna yngri en 18 ára hafa gengið í hjónaband á meðan þú, lesandi góður, gafst þér tíma til að lesa þessa grein, fær mann til að leiða hugann að því hvað hver og einn getur gert til að binda enda á barnahjónabönd. Þetta varðar okkur öll og saman getum við gert heiminn að betri stað til að búa í.