ABC í 30 ár
Stiklað á stóru
Stiklað á stóru
ABC hjálparstarf var stofnað í júní árið 1988. Stofnendur samtakanna voru átta einstaklingar.
Hugsjón og vilji til að rétta fram hjálparhönd voru ástæðurnar og afraksturinn er að tugþúsundir bágstaddra einstaklinga hafa haldið út í lífið vopnuð menntun og von.
Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar. Með menntun eru öllum allir vegir færir og sú hugsjón ABC hefur verið leiðandi frá upphafi.
1988 : Hafist handa í Sigtúni
ABC hjálpastarf hefur starfsemi og skrifstofu er komið upp í Sigtúni í Reykjavík, sem í dag heitir Sóltún. „Það reyndist vera mikil blessun fyrir starfið að fá þetta húsnæði því þaðan gátum við hafið starfsemina,“ segir Hannes Lentz, einn af stofnendum ABC barnahjálpar.
Ýmsum hugmyndum kastað fram um hvernig skuli raungera hugsjón þessara nýju samtaka.
1989 : Fyrstu verkefnin
Prentaðar lestrarkennslubækur og haldin lestrarkennslunámskeið á tveimur indíánamálum í Mexíkó. Námskeiðin voru haldin fyrir tvo þjóðflokka í samstarfi við þekkta Biblíuþýðendur í Bandaríkjunum. „Starfið fór af stað og við styrktum gerð ritmáls indíánaættbálks. Það voru ýmsir fleiri sem leituðu fjárhagsaðstoðar en þetta spurðist fljótt út og það voru einhver smáverkefni sem voru styrkt. En mjög fljótlega fórum við að styrkja börn til náms,“ segir Georg Ólafur Tryggvason, einn af stofnendum ABC barnahjálpar.
Verkefnið var fjármagnað fyrir ágóða af sölu plötunnar „Hjálparhönd“ og sölu á pennum.
Árið eftir var haldið lestrarkennsluverkefni fyrir þjóðflokk á Fílabeinsströndinni.
1990 : Samstarf við Barnmissionen og stuðningur á Filippseyjum
Árið 1990 hóf ABC í samstarfi við Barnmissionen, sænsk hjálparsamtök, að styðja börn til náms á Filippseyjum. Barnmissionen rekur þar í landi þrjá forskóla, einn grunnskóla, stendur fyrir starfsnámi í alls kyns greinum og starfrækir barnaþorp í samstarfi við félagsmálayfirvöld.
Samstarf ABC við Barnmissionen hefur haldist alla tíð síðan og tóku sænsku hjálparsamtökin virkan þátt í gæðaeftirliti með skólum ABC. „ABC hefur stutt við starf Barnmissionen í langan tíma. Samtökin láta að mörgu leyti ekki mikið fyrir sér fara en þau hafa verið dyggur stuðningsaðili okkar. Náið samstarf hefur gagnast báðum aðilum. Sameinuð erum við sterkari og getum hjálpað fleirum,“ segir Bo Wallenberg, framkvæmdarstjóri Barnmissionen.
Í dag styrkja íslenskir stuðningsaðilar hundruð barna til náms á Filippseyjum.
ABC barnahjálp safnaði einnig pening fyrir byggingu barnaheimilis í Kambódíu sem Mission of Mercy rekur. Heimilið var byggt fyrir pening sem var safnað með súkkulaðisölu á útvarpsstöðinni Stjörnunni.
1993 : Starf hafið í Úganda
Samstarf hafið við Uganda Australia Foundation sem hjónin Trudy og Francis Odida stofnuðu til hjálpar nauðstöddum börnum í Úganda. Samtökin bera nafnið ABC Children‘s Aid Uganda í dag. „Ég sá hvað þetta er að gera mikið fyrir krakkana. Þarna eru börn sem hefðu annars ekki átt möguleika á að fara í skóla. Það eru ókeypis ríkisreknir skólar en þarna er svo mikil spilling og oft er rukkað fyrir þá og það er ekki góð menntun sem krakkar fá í þeim skólum. Í ABC skólanum eru þeir að fá virkilega góða menntun. Ég hitti þarna gamla nemendur sem voru komnir í háskóla og eru að læra að verða læknar og allt mögulegt. Það er frábært að sjá hvað margir hafa náð langt,“ segir Berglind Bernardsdóttir sem hélt út í sjálfboðaliðastarf til Úganda á vegum ABC barnahjálpar árið 2015.
Alls rekur ABC Children‘s Aid Uganda níu skóla í landinu og samstarfið heldur áfram í dag. Íslenskir stuðningsaðilar styrkja á annað þúsund börn til náms í skólunum.
1995 : Starf hafið á Indlandi
ABC stendur fyrir stofnun heimilis fyrir götubörn í borginni Chennai á Indlandi. Samtökin keyptu land og byggðu heimili og skóla á því. Hugsjónakonan Eva Alexander stofnaði Comforter Ministries í þeim tilgangi að hjálpa hinum stéttlausu að mennta sig og komast í starfsnám.
Í gegnum árin hefur ABC staðið fyrir söfnunum og hjálpað samtökunum að koma sér upp og í dag er rekinn skóli sem gagnast þeim nauðstöddu sem annars gætu ekki nálgast menntun sökum stöðu sinnar og fátækt. „Mín vinna snérist um að hjálpa konum sem voru fordæmdar í þjóðfélaginu. Með tímanum fórum við einnig að hjálpa börnum þeirra og einnig munaðarleysingjum. Við byggðum heimili til að forða þeim frá vítahring höfnunar, útskúfunar, fordæmingar, misþyrmingar, vinnuþrælkunar og mansals með því að veita andlegan styrk og menntun. Markmiðið var að hjálpa þeim að verða sjálfstæð,“ segir Eva Alexander.
1996 : Stuðningur við Heimili litlu ljósanna á Indlandi
ABC stendur fyrir byggingu íbúðarhúss og fjárfestir í landi fyrir Heimili litlu ljósanna á Indlandi.
Í gegnum árin hafa tugþúsundir fátækra barna fengið góða menntun í skólanum og á landsvísu hefur hann skarað fram úr ár eftir ár. ABC hefur fjármagnað margar skólabyggingar og heimavistir á svæðinu. Einnig er skólinn mjög sjálfbær þar sem rekinn er eigin búgarður og mikil grænmetisrækt er á svæðinu. „Okkar markmið á Heimili litlu ljósanna hefur alltaf verið að hlúa að þeim yfirgefnu og fátæku og gefa þeim tækifæri í lífinu,“ segir Samuel Motupalli, forstöðumaður.
Íslenskir stuðningsaðilar hafa frá upphafi styrkt börn til náms og ABC hefur staðið fyrir fjölmörgum söfnunum sem hafa hjálpað til við uppbyggingu skólans.
Árið 2017 var samstarfi við Heimili litlu ljósanna hætt en starfsemin þar gengur mjög vel. „Þökk sé ABC höfum við stutt við og menntað þúsundir barna. Flest þeirra hafa komið sér vel upp í dag. Björgun á lífi þýðir björgun fyrir heila kynslóð og börnin eru vitnisburður um það. Það gleður mig að vita að börn sem virkilega þurfa á hjálp að halda muni fá hana í gegnum ykkur. Heimili litlu ljósanna hefði ekki blómstrað eins og það hefur gert án ykkar hjálpar,“ segir Samuel.
1998 : Börn hjálpa börnum
Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, fer af stað.
Nemendur í grunnskólum landsins taka höndum saman og ganga í hús og í fyrirtæki á nærliggjandi svæðum og safna í bauka. Söfnunarféð er svo notað í ýmis brýn verkefni eða notað til að styrkja innviði skólastarfs í stuðningslöndunum. „Einn daginn var ég að hugsa um hvernig við gætum safnað fyrir hlutum og þessi hugmynd kom upp. Við ættum bara að fá börn í lið og þá yrði þetta í orðsins fyllstu að börn hjálpa börnum,“ segir Guðrún Margrét Pálsdóttir, einn af stofnendum ABC barnahjálpar.
Frá upphafi og til ársins 2017 hafa þessir „ungu sendiherrar ABC“ safnað um 130 milljónum króna til styrktar starfinu. „Það varð svo mikið úr peningunum. Við vorum að byggja stórar byggingar og fleira fyrir afraksturinn úr þessari einu söfnun. Við hugsuðum með okkur „vá hvað þetta skiptir miklu máli,“ segir Guðrún.
2004 : ABC hjálparstarf verður ABC barnahjálp
Nafninu á samtökunum er breytt í ABC barnahjálp. Nafnið þótti betur árétta eðli starfsins.
Á sama tíma var „lógó“ samtakanna breytt og hannaði Þórhallur Kristjánsson nýja merkið.
2005 : Starf hafið í Pakistan og höfuðstöðvar fluttar
ABC hefur samstarf við Pakistana að nafni Sharif Ditta sem hóf starfsemi skóla í eigin húsnæði sem synir hans byggðu fyrir hann til að njóta eftirlaunaaldurs.
Alls stóð ABC fyrir byggingu sex skóla í landinu með söfnunum og stuðningi frá íslenskum styrktarforeldrum. „Þetta er erfitt land og erfitt umhverfi. Ég held það sé vandfundið í heiminum erfiðari kringumstæður til að búa í sem kristinn einstaklingur. En við getum verið stolt af því sem við erum að gera þarna. Peningarnir sem fara út eru vel nýttir,“ segir Þráinn Skúlason, aðstoðarskólastjóri í Slysavarnarskóla sjómanna og stjórnarmaður ABC.
Árið 2017 lauk samstarfi ABC í Pakistan.
Höfuðstöðvar ABC barnahjálpar flytja úr Sóltúni yfir í Síðumúla.
2006 : Starf hafið í Kenýa
ABC hefur starfsemi í Nairobi, höfuðborg Kenýa, eftir að heimamaður vekur athygli á hinni miklu neyð sem ríkir og á þeim fjölda barna í fátækrahverfum sem ganga ekki í skóla. Í fyrstu var opnað heimili fyrir umkomulaus börn í einkahúsnæði en fljótlega var leigður skóli sem staðsettur er í miðju fátækrahverfi og ber hann heitið „Star of Hope“. „Við komum í stórborg og sá ég gríðarlega mikla fátækt og hins vegar gríðarlega mikið ríkidæmi. Þetta hafði maður alveg heyrt um,“ segir Laufey Birgisdóttir, framkvæmdastjóri ABC.
Nemendur skólans eru fyrrum götubörn sem hafa alist upp í fátækrahverfunum í höfuðborginni og góður námsárangur sem og framúrskarandi gengi ljóðahópsins í árlegri keppni á landsvísu er hreint magnaður. Stjórnendur á svæðinu eru einnig í góðu samstarfi við hverfistjóra barna í Mathare, hverfinu þar sem skólinn er staðsettur, og því er hægt að nálgast fjölskyldur sem eru í mikilli neyð og koma börnum úr þeim inn í skólann.
2007 : Starf hafið í Búrkína Fasó
Hinrik Þorsteinsson og Guðný „Gullý“ Ragnhildur Jónasdóttir halda út til Búrkína Fasó til að hefja starf á vegum ABC. Fátæktin í landinu er gríðarleg og talið að um 60% þegna líði verulegan skort. Starfið hófst í leiguhúsnæði með 100 nemendum en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.
Viðamikið starf hefur byggst upp og í dag er kominn á laggirnar menntaskóli og munu nemendur geta klárað ígildi stúdentsprófs í skólanum. „Ég er alveg bit yfir því hvað þetta er þróuð hugmynd hjá stofnendunum. Hér eru hundruð barna í skólanum og þeim á eftir að fjölga. Mun fleiri börn koma inn á svæðið að skólatíma loknum og taka þátt í íþróttastarfi sem er öllum opið. Það er verið að nýta tækifærið út í ystu æsar. Hver einasta króna nýtist vel,“ segir Einar Rúnar Einarsson, sjálfboðaliði sem hefur tvisvar haldið til ABC skólans í Búrkína Fasó.
Skólinn er staðsettur nálægt stóru fátækrahverfi og nemendur hefðu án hans ekki kost á skólagöngu.
2008 : Nytjamarkaður stofnaður
Nytjamarkaður ABC hefur göngu sína í Faxafeni í samstarfi við Líknarfélag Kærleikans. Ári seinna er hann fluttur yfir í Skútuvog og er alfarið rekinn af ABC barnahjálp og mannaður af sjálfboðaliðum á vegum samtakanna.
Stærra og betra húsnæði fannst handan við hornið í Súðarvogi og „Nytjó“ orðinn að mikilvægri tekjulind fyrir samtökin. Markaðurinn festir rætur og hefur alla tíð síðan reynst ómissandi í að breiða út boðskap ABC ásamt því að vera heilmikil búbót fyrir landsmenn. „Það er mjög gaman að hafa verið vitni að og hafa tekið þátt í að gera Nytjamarkaðinn að raunverulegu og viðurkenndu fyrirtæki. Viðbrögð fólks hafa gert þetta að verkum. Við tökum vel á móti öllum sem koma og sýnum þakklæti í garð þeirra sem færa okkur gjafir,“ segir Gróa Halldórsdóttir, fyrrverandi „kaupfélagsstjóri“ Nytjamarkaðarins.
2009 : ABC skólinn hefur göngu sína
ABC hefur göngu skóla sem fræðir fólk um starfsemi samtakanna og hjálparstarf almennt. Fagfólk víða leggur lið við að móta kennsluefni og sinna kennslu. Í lok hverrar annar hélt hópur út á vettvang til Kenýa og fékk að kynnast starfinu þar og taka virkan þátt. „Skólinn var góð leið til að kynna starfið, ekki bara okkar heldur allra hinna. Það sem við vonuðumst helst eftir var að það kæmu einhverjir liðsmenn til okkar,“ segir Guðrún Margrét.
Allir kennarar gáfu vinnuframlag sitt.
Árið 2015 hættir ABC skólinn starfsemi sinni í óákveðinn tíma eftir að hafa verið starfræktur í sex ár. Fjöldi manns útskrifaðist á þessum tíma og urðu formlega „ABC liðar.“ „Við útskrifuðum rúmlega 140 manns og enn fleiri tóku þátt á einn eða annan hátt. Ávinningurinn af skólanum skilaði sér í miklum mannauði,“ segir Bryndís Rut Stefánsdóttir, skólastjóri ABC skólans.
2011 : Starfið stækkar í Kenýa og stuðningur við innanlandsverkefni
Í lok ársins setti ABC á fót skóla að nafni ABC Complex School á svæði Masai fólksins á miklu dreifbýlissvæði í Kenýa. „Í Namelok hjá Masaaia ættbálknum ríkir alger friður og þar er engin umferð og ekkert áreiti eins í hinum ABC skólanum í Naíróbí. Hér er maður kominn í allt annan menningarheim,“ segir Laufey.
Framtíðarhorfur Masaianna eru í miklu uppnámi sökum slæmra skilyrða og því binda þeir miklar vonir við menntun barnanna. Fátæktin á svæðinu er gríðarleg. Nemendur skólans byrja í grunnskóla og geta klárað ígildi stúdentsprófs.
ABC ræðst í fyrsta innanlandsverkefnið í samstarfi við Marita fræðsluna og IOGT. Samtökin kosta jákvæðar forvarnir fyrir nemendur og foreldra 5. og 6. bekkinga. Í dag fer fræðslan fram undir heitinu „Forvarnarfræðsla Magga Stef“. Á fræðslufundum sínum í gegnum árin hefur Magnús rætt við yfir 180.000 einstaklinga. „Fræðslan hefur verið í stöðugum uppgangi í fjölda ára og það ber að taka hana alvarlega“, segir Magnús Stefánsson framkvæmdarstjóri.
2015 : Höfuðstöðvar og „Nytjó“ flytja í Kópavoginn
Í byrjun árs flytja höfuðstöðvar ABC og „Nytjó“ starfsemi sína yfir í Víkurhvarf 2 í Kópavogi. Í fyrsta sinn eru Nytjamarkaðurinn og skrifstofur samtakanna á sama stað. Gengi „Nytjó“ heldur áfram að blómstra. „Það er búin að vera verðstöðvun síðan við byrjuðum, sama verðið frá upphafi. Þetta er langbesti markaðurinn,“ segir Eggert Ólafur Antonsson, starfsmaður á Nytjamarkaðnum.
2017 : Þátttaka í starfi í Bangladess
ABC hefur samstarf við frjálsu félagasamtökin Agape Social Concern sem reka „Heimili friðar“ sem er skóli og heimavist á dreifbýlissvæði í Bangladess. Á þessu svæði er mikil fátækt og lífsskilyrði erfið. „Okkar markmið er að veita börnunum ást og umhyggju ásamt því að mennta þau og hugsa um líkamlega vellíðan,“ segir Albert Mridha, forstöðumaður Heimilis friðar.
Á heimilinu eru hundruð barna og geta þau klárað þar ígildi gagnfræðaskólanáms.
2018 : Samtökin 30 ára gömul, nýtt samstarf í Pakistan og annar nytjamarkaður opnar í Hafnarfirði
ABC barnahjálp fagnar 30 ára afmæli.
ABC hefur samstarf við Rasta Foundation í Pakistan sem starfrækir „Brick Kiln slaves school“. Nemendur skólans eru börn þræla í múrsteinaverksmiðju í dreifbýlishéraði í landinu og í sumum tilfellum hafa börnin þegar unnið við að búa til múrsteina. Börnin eiga það sameiginlegt að hafa ekki fengið neina kennslu áður en þau koma í skólann. „Ég hef komið víða við í heiminum og séð margt en ég hef aldrei séð jafn mikla eymd og þarna. Þetta er mjög gott tækifæri fyrir ABC að hafa gríðarlega mikil áhrif á líf einstaklinga,“ segir Þráinn Skúlason.
Nýr nytjamarkaður hefur göngu sína að Dalshrauni 13 í Hafnarfirði.