Í dag, 24. október, er alþjóðlegur dagur „make a difference“ sem er fyrir mér að láta gott af sér leiða eða hafa áhrif.
Mér var hugsað til allra vina okkar í Afríku og Asíu sem hafa sinnt börnum í vonlausum aðstæðum af bæði hugsjón og kærleika. Hugsjónafólk sem vildi láta gott af sér leiða stofnuðu samtökin ABC barnahjálp fyrir 32 árum síðan og höfðu þá ekki hugmynd um hversu áhrifarík sú ákvörðun var, ákvörðun sem myndi hafa jákvæð áhrif á þúsundir barna og fjölskyldur þeirra.
Hugsjónafólk sér um starfið í Afríku og Asíu. Ein þeirra er Trudy sem fór frá Ástralíu til Uganda sem ung nunna til að hjálpa fólki í flóttamannabúðum í norður Uganda en þegar hún var um fertugt ákvað hún að opna skóla í samstarfi við ABC barnahjálp og hefur nú rekið ABC skólann í Uganda í 30 ár. Trudy segir iðulega: „Þótt þú sért fátækur þýðir það ekki að hugurinn sé fátækur.“ Ef þú trúir þessu kemstu að raun um að með menntun og dugnaði eru þér allir vegir færir. Þessu trúa börnin í ABC skólunum og þessa von ala þau í brjósti. Ég fann hversu stolt börnin voru af skólanum sínum og mörg þeirra sögðu mér að þau vildu verða kennarar þegar þau ljúka námi til að hafa áhrif á líf annara barna. Margoft hef ég hitt mæður sem eiga börn í skólanum sem hafa orðið fyrir „áhrifum“ og mæta í skólann til að hjálpa sem sjálfboðaliðar og láta gott af sér leiða.
Mér varð hugsað til allra stuðningsaðila ABC sem hafa fært þúsundum barna tækifæri og von með dyggum og beinlínis ómetanlegum stuðningi. Þessi stuðningur hefur gert okkur mögulegt að kaupa land og byggja hús, skóla og heimavistir. Þannig höfum við styrkt samfélagið á hverjum stað fyrir sig og glætt umhverfið lífi með því að leggja okkar af mörkum og hafa jákvæð áhrif. Byggingar hafa risið og frjóir hugar fengið að blómstra. Vonleysi hefur breyst í von og fyrirfram ákveðin örlög orðið að óskrifuðu blaði.

Oft hef ég hitt fyrrum nemendur ABC sem hafa haldið út í lífið eftir nám og látið gott af sér leiða. Einn þeirra er Wycliffe sem var nemandi ABC í Úganda. Í dag starfar hann sem barnalæknir. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta þennan unga lækni þegar ég heimsótti skólann okkar í Úganda. Wycliffe var níu ára gamall þegar hann kom í skólann og ég varð djúpt snortin þegar hann sagði mér frá hve snemma hann setti sér háleit markmið um að verða læknir og hafa áhrif á samfélag sitt þegar hann yrði stór og það er hann svo sannarlega að gera í dag. Hann gefur ABC skólanum í Uganda einn dag í mánuði og hittir nemendur sem þurfa á ókeypis læknisþjónustu að halda.

Með þessari litlu hugleiðingu minni vil ég minna mig og aðra á hvað það er auðvelt að hafa áhrif sem skipta máli, með því að huga að náunganum og þeim sem minna mega sín.
Laufey Birgisdóttir,
framkvæmdastjóri