Áfram í átt að sjálfbærni! - ABC barnahjálp

Áfram í átt að sjálfbærni!

Fyrir skömmu lauk verkefni á vegum ABC í Kasangati og Kitetika í Úganda. Verkefnið laut að því að efla og hvetja mæður og ungar konur til að mennta sig og skapa verðmæti með höndunum, bæði til að auka tekjur fjölskyldunnar og styðja börnin í skólagöngunni.

Markmiðin voru nokkur og ber þar helst að nefna að efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna, byggja upp lifandi, frumlegt, skapandi og sjálfstætt samfélag sem leitast við að vera sjálfbært.

Hvernig spara má pening

Það má kannski orða það svo að fé úr nokkrum sjóðum ABC hafi verið notað til að „fjárfesta“ í konum á svæðinu með því að bjóða upp á ýmis gagnleg námskeið. Í janúar sl. mættu 45 konur á vikulangt námskeið í Village Saving Loans Association. Þar fór fram fjármálafræðsla og var fjármálalæsi þátttakenda í forgrunni. Þátttakendum var skipt upp í þrjá hópa og bauðst þeim að taka peningalán með lágmarksvöxtum. Konurnar fengu fræðslu um hvernig ávaxta mætti peningana og það hafa þær sannarlega fært sér í nyt því hóparnir þrír höfðu í sumarlok náð að safna því sem nemur fjögur hundruð þúsund shillingum (e. shillings – mynteining í Úganda). Sjö kvennanna stofnuðu til sjálfstæðs fyrirtækjarekstrar sem er smár í sniðum en hefur gefið af sér daglega.

Hvatt til endurvinnslu

Með það fyrir augum að bæta hollustuhætti kvenna og stúlkna meðan á tíðablæðingum stendur fór fram sérstakt námskeið í júlí sl. þar sem kennd var endurvinnsla á dömubindum. Tíu konur sóttu námskeiðið sem fór fram í sal á svæði grunnskólans. Farið var yfir mikilvægi hreinlætis með tíðahringinn til hliðsjónar. Í þessu fólst einnig kennsla í hvernig búa má til sín eigin dömubindi með því að nýta efnivið úr nágrenninu.

Dorreen er ein þeirra sem sótti námskeiðið og segist hún vera ákaflega ánægð með það sem hún lærði: Nú þarf hún ekki að eyða peningum í dömubindi framar!

 

Heimagerð sápa

Í ágúst var haldið námskeið í því hvernig búa á til sápu í fljótandi formi. Fimmtán konur sóttu námskeiðið. Farið var yfir þær gerðir sápu sem til eru, innihaldsefni og framleiðsluferli. Í lok námskeiðsins höfðu þátttakendur búið til heila fjörutíu lítra af sápu! Fyrir tilstilli námskeiðsins hafa konurnar getað búið til sápu og selt ABC skólunum á svæðinu.

Kol unnin úr tilfallandi úrgangi

Með það að markmiði að vernda umhverfið og draga úr skógarhöggi var boðið upp á námskeið í því hvernig búa má til kol til eldunar. Fimm konur sóttu námskeiðið og nú hafa þær lært hvernig nýta má ýmislegt sem til fellur í umhverfinu til að búa til kol: Kolaagnir, sag, kúamykja og pappír eru á meðal þess sem þær nýttu. Kolin voru þurrkuð og að þurrkun lokinni voru kolin gæðaprófuð. Konurnar voru spenntar að halda áfram að búa til kol heima og nota til eldamennsku.

Kona nokkur að nafni Akello Annette naut góðs af námskeiðinu og hófst þegar handa við að vinna kol heima hjá sér. „Ég er svo ánægð að geta lagt fyrir peningana sem annars hefðu farið í að kaupa kol,“ segir hún.

Prjóna- og vefnaðarnámskeið

Konurnar sem vildu læra að vefa tágakörfur gátu sótt námskeið þar sem prjónaskapur var kenndur sem og listin að vefa. Átta konur sóttu námskeiðið og lærðu meðal annars að búa til körfur og vefa dyramottur. Yfirvöld lögðu fjármuni til þessa námskeiðs. Tágakörfurnar sem um ræðir hafa sérstakt gildi á svæðinu en þær eru til dæmis notaðar undir gjafir við hátíðleg tækifæri.

Twongire Maureen er ein þeirra sem sótti námskeiðið og nú þegar hefur innkoman aukist og hún er byrjuð að leggja fyrir. „Ég er ABC barnahjálp innilega þakklát fyrir að kenna mér að vefa. Ég bý til mínar eigin körfur og það er eftirspurn eftir þeim. Með hverri körfu sem ég sel get ég stutt fjölskyldu mína enn frekar fjárhagslega,“ segir hún.

Svínarækt

Í ljós kom að fimm kvennanna í hópnum vildu fá kennslu í því hvernig halda á svín. Þær höfðu allar einhverja reynslu af svínarækt fyrir. Hér má taka Nantongo Betty sem dæmi. Hún vann áður fyrir sér með því að safna rusli. Með stuðningi frá ABC fékk hún vinnu við þrif og í kjölfarið gat hún safnað sér peningum til að kaupa sér svín. Hún lagði hart að sér til að geta ræktað svín og með námskeiðinu og stuðningi gat hún hafið eigin rekstur. Núna á hún fimm svín og selur viðskiptavinum sínum grísi fyrir 80.000 shillinga hvern. Hún er líka í hlutastarfi samhliða svínaræktinni og þénar þar 10.000 shillinga á degi hverjum.  Lífstíll Bettyjar og lífsviðurværi hafa sannarlega breyst til batnaðar og hún getur greitt skólagjöld barnanna sinna til fulls. Betty tilheyrir einum af þremur hópunum sem nefndir voru í upphafi og leggur hún fyrir 10.000 shillinga á viku.

Eftirfylgni

Á síðustu námsönn voru farnar nokkrar heimsóknir til þeirra barna sem njóta stuðnings til náms en hafa verið mikið fjarverandi. Þessar heimsóknir eru mikilvægar til að stuðla að því að börnin njóti þeirrar góðu kennslu og menntunar sem þau eiga að fá. Sumir nemendanna sem tilheyra verst settu fjölskyldunum hafa fengið styrki úr kærleikssjóði Mariam og með því móti hefur verið hægt að draga úr afföllum.

Einnig voru þær konur heimsóttar sem sótt höfðu námskeiðin sem greint var frá hér að ofan. Tilgangurinn var að fylgja verkefninu eftir og kanna hvernig þær höfðu nýtt þekkinguna. Margar höfðu byrjað eigin rekstur og einn hópurinn framleiðir sápu og selur skólunum.

 

Það má glöggt sjá að með þessu móti hefur hópur kvenna eignast „verkfæri“ sem gagnast samfélaginu og þetta frumkvæði ABC stuðlar jafnframt að aukinni sjálfbærni á svæðinu. Það skiptir miklu máli að fólk finni að það getur áorkað svo miklu sjálft, fái það hvatningu og réttu verkfærin.