Ánægjulegir endurfundir - ABC barnahjálp

Ánægjulegir endurfundir

Fjölskyldan er sannarlega mikilvægur hluti hvers samfélags. Öll komum við frá mismunandi fjölskyldum og reynsla okkar af fjölskyldulífi er misjöfn. Liður í endurhæfingaráætlun okkar fyrir börn í Open Heart Children´s Village á Filippseyjum er að bjóða börnunum að heimsækja líffræðilega fjölskyldu sína og ættingja á frídögum.

Tvö barnanna eru munaðarlaus en þau eiga systkini og aðra ættingja. Þau vörðu sex dögum í heimabæ móður þeirra ásamt eldri bræðrum og systkinabörnum. Þau voru mjög spennt og glöð þegar þau lögðu af stað! Þegar þau komu til baka til þorpsins deildu þau með okkur sögum og hlakka til þess dags þegar þau geta öll sameinast á ný.

Í fríinu gafst tími til að rifja upp eitt og annað frá þeim tíma sem fjölskyldan bjó saman. Það er ár liðið frá því móðir þeirra lést og fjögur ár síðan faðirinn lést. Þegar systkinin hittust gafst tækifæri til að fara að leiði móðurinnar.

Það gafst líka nægur tími til að leika sér og frændsystkinin gerðu það svo sannarlega! Angely (annað barnið) fékk í fyrsta skipti á ævinni tækifæri til að spreyta sig á þrautum í skemmtigarði og vann til verðlauna. Hún vann heilan helling og bræður hennar samglöddust henni svo innilega að á leiðinni til baka úr skemmtigarðinum var gassagangurinn svo mikill að fólk var farið að glápa á þau…

Angely fékk líka tækifæri til að hitta fyrrum samnemendur sína. Það er draumur barnanna tveggja að geta einn daginn yfirgefið Open Heart Children´s Village. Ekki af því að þeim líki ekki að vera þar heldur vilja þau að sjálfsögðu vera með fjölskyldu sinni.

Hér má lesa meira um hvernig starfi ABC barnahjálpar er háttað á Filippseyjum.