Bakstursdagur hjá nemendum í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Bakstursdagur hjá nemendum í Búrkína Fasó

Hverskyns bakstur þykir sjálfsagður hlutur fyrir okkur Íslendinga og ef svo ber undir er lítið mál að skreppa í bakarí og þar má nálgast flest það sem hugurinn girnist. Í Búrkína Fasó er ekki á hvers færi að fá nýbakað brauð eða kökur því venjulegt fólk hefur hvorki aðstöðu til baksturs né efni á því að kaupa hveiti.

Á heimavistinni okkar búa ungar stúlkur og það er afar mikilvægt fyrir þær að læra að bjarga sér og öðlast sjálfstæði. Um páskana var haldið fjögurra daga verklegt námskeið í bakstri þar sem þær lærðu bæði að baka brauð með pressugeri og kökur með lyftidufti. Handbragð af þessu tagi getur skilað sér í atvinnutækifærum í borginni þar sem bakarí eru starfrækt.

Bakaramenntaður kennari sýndi stúlkunum réttu handbrögðin og fékk skólinn gasofn lánaðan til að hægt væri að framkvæma þetta. Á myndunum sjáum við afrakstur námskeiðisins en  stúlkurnar enduðu það á því að baka tvær glæsilegar tertur og skreyta þær fallega.
Skildu eftir svar