Bingó og málverkauppboð til styrktar ABC barnahjálp - ABC barnahjálp

Bingó og málverkauppboð til styrktar ABC barnahjálp

Fimm manna nefnd í Fríkirkjunni Vegurinn tók sig til um páskana og hélt bingó og málverkauppboð til styrktar ABC barnahjálp. Sjö listamenn gáfu málverk á uppboðið og fjöldi fyrirtækja gaf vinninga í bingóið. Var húsfyllir á bingókvöldinu í húsakynnum Vegarins í Kópavogi. Ágóði af vöfflu- og kaffisölu Vegarins rann líka beint til starfsins og gaf Ölgerðin gos sem var selt á staðnum.

Samtals söfnuðust 701.310 krónur og fyrir slíka upphæð má gera fjölmargt á vettvangi starfs okkar. Fjármununum var varið í Pakistan og Bangladess. Í Pakistan var komið upp heilsugæslu og heimsóknir lækna tryggðar út skólaárið. Vatnsbrunnur var byggður á lóð skólans okkar auk þess sem sett var upp öryggishandrið á milli hæða í skólabyggingunni.

Keyptar voru 300  dýnur, koddar og moskítónet fyrir heimavist skólans okkar í Bangladess.

Erum við innilega þakklát fyrir framtakið og njóta börnin í Pakistan og Bangladess verulega góðs af því.

Meðfylgjandi eru myndir frá kvöldinu og Pakistan.