Tracy er níu ára gömul stúlka og hún stundar nám í skóla á vegum ABC barnahjálpar í Úganda. Hún er bráðgáfuð og hreinlega elskar að ganga í skóla. Tracy býr með móður sinni og þremur systkinum í tveggja herbergja húsi. Þar er ekkert rafmagn og notast þarf við kertaljós þegar kvöldar til að lýsa upp heimilið. Vatn þarf að sækja í brunn í nokkur hundruð metra fjarlægð og það gerir Tracy á hverjum degi ásamt því að hjálpa til við þvott og eldamennsku eftir að skóladegi lýkur.
Móðir hennar þénar örlítinn pening með því að þvo þvott nágranna í þorpinu og stjúpfaðir Tracy fær um 115 krónur á dag fyrir vinnu sína sem almennur verkamaður. Saman þéna þau engan veginn nógu mikinn pening til að kosta skólagöngu Tracy. Ekki er vitað hvar líffræðilegur faðir hennar er niðurkominn.
Bjartsýnin ríkir þó hjá fjölskyldunni og móðir Tracy er styrktaraðila dóttur sinnar afar þakklát. „Styrktarkerfi ABC færir fjölskyldum von um betri framtíð í gegnum menntun barnanna“, segir hún og vill skila kæru þakklæti til stuðningsaðila Tracy.