Blómlegt skólastarf í Bangladess - ABC barnahjálp

Blómlegt skólastarf í Bangladess

Á hverju ári fjölgar börnunum á Heimili friðar í Bangladess. Þar rekur ABC skóla og heimavist í samstarfi við Agape Social Concern og hér má lesa um hvernig hefur gengið þar á fyrrihluta þessa árs.

Fjölgun barnanna er sannkallað gleðiefni um leið og það er viss áskorun fyrir starfsfólk Heimilis friðar. Það er gleðiefni því að Heimili friðar hefur þau sérréttindi að móta þetta unga fólk, gefa þeim ný tækifæri og framtíðarvon. Hins vegar getur verið krefjandi að hjálpa ungum börnum að aðlagast nýju umhverfi, breyttum aðstæðum og náminu sjálfu.

Starfsfólkið þarf að sýna þolinmæði til að börnunum líði sem best við þessar nýju aðstæður. Heimili friðar hefur þjálfað fagfólk til að annast börnin af ástúð. Á fáeinum mánuðum er flestum börnunum farið að líða eins og þau séu heima hjá sér.

 

Á þessu ári fengu 618 börn inngöngu á Heimili friðar. Börnin fengu lestrarbækur og skrifblokkir og voru afskaplega glöð að fá nýjar bækur. Anganin af nýprentuðum bókum og myndirnar heilluðu þau. Það má eiginlega segja að þau hafi verið dáleidd af tilhugsuninni um þetta ferðalag um menntabrautirnar sem framundan er!

Vitundarvakning

Skipulagt var sérstakt átak sem snéri að vitundarvakningu krakka á aldrinum tíu til fimmtán ára. Nemendur fengu fræðslu um skaðsemi fíkniefna  og önnur mikilvæg málefni sem þau gætu staðið frammi fyrir síðar á lífsleiðinni. Mikilvægi þess að gæta vel að eigin heilsu og hreinlæti var einnig tíundað og tóku bæði nemendur og starfsfólk þátt í vitundarvakningunni.

 

Í þessum heimshluta er brýnt að fara vandlega yfir málefni sem snerta hreinlæti og hefur sérstök áhersla verið lögð á þau á Heimili friðar. Umfjöllunarefnin voru margvísleg og má þar nefna hvernig best er að halda sér hreinum og hvernig hirða á um tennur. Hreinlætisvörur voru líka til umfjöllunar og þeim dreift til krakkanna. Allir fengu sjampó, sápur, tannkrem, hárolíu, áburð, naglaklippur, hárbönd og fleira. Stúlkur á aldrinum 12-15 ára fengu dömubindi og líka yngri stúlkur sem þegar höfðu hafið tíðir. Ítarleg fræðsla fór fram um notkun dömubinda og hreinlæti meðan á tíðum stendur. Hluti starfsfólks gætir vikulega að hvort börnin séu með vel klipptar neglur til að viðhalda því sem börnin voru að læra um hollustuhætti.

Teppum úthlutað

Norður-Bengal er kaldasti hluti Bangladess. Heimili friðar er staðsett í Dinajpurhéraði sem er í norðri. Teppum var úthlutað til nemenda og kunnu þeir vel að meta það. Þó svo að teppi sé algjör nauðsyn og í raun grundvallaratriði að eiga eitt slíkt á þessu svæði, átti ekkert barnanna teppi áður en þau komu á Heimili friðar.

Börnin fengu líka sokka, skó, skólabúninga, skólatöskur, stuttermaboli og ýmis föt.

Nei við fíkniefnum

Alþjóðadagur gegn misnotkun og sölu fíkniefna var þann 26. júní síðastliðinn og þemað í ár fólst í því að hlusta fyrst því það að ljá börnum og unglingum eyra er fyrsta skrefið til þess að þau vaxi úr grasi heilbrigð og örugg. Til að vekja athygli almennings á alþjóðadeginum var efnt til litríkrar samansöfnunar víðsvegar um Bangladess. Krakkarnir á Heimili friðar mættu til slíkrar samansöfnunar sem skipulögð var af yfirvöldum í Birganj Upazila. Um 4500 manns tóku þátt og var mikil samstaða og einhugur.

 

Góðir gestir

Nemendur og starfsfólk Heimilis friðar var þeirrar ánægju aðnjótandi að fá góða gesti. Þær Catharina dos Santos frá Children´s Mission í Svíþjóð og Sigurlín Sigurjónsdóttir frá ABC barnahjálp á Íslandi komu og dvöldu á Heimili friðar frá 17. til 23. mars.

Það var áhrifaríkt að heimsækja fjölskyldur barnanna. Hér er Sigurlín í heimsókn.

Þær Catharina og Sigurlín kynntu sér vandlega starfsemina og hvernig ná mætti sem bestum árangri í skólastarfinu. Þeim gafst líka tækifæri til að heimsækja foreldra nokkurra nemenda. Foreldrunum þótti afar ánægjulegt að fá þær í heimsókn og deildu með þeim hversu glöð þau væru að sjá börn sín læra að lesa og skrifa. Þetta voru afar tilfinningaríkar heimsóknir.

 

Catharina naut sín vel innan um börnin á Heimili friðar.