Ég er Lal Pek Kim Bom. - ABC barnahjálp

Ég er Lal Pek Kim Bom.

Ég er nemandi í öðrum bekk á Heimili friðar.
Ég er Lal Pek Kim Bom.

Ég kem frá hæðarsvæðinu í Bangladess. Þar er aðeins einn grunnskóli og kennarar þar eru ekki fastráðnir heldur koma þeir bara stundum. Ég var vön að fara þangað og bíða í langan tíma eftir að kennari myndi koma og stundum kom bara enginn. Þetta er eini skólinn á þessu stóra svæði.

Ein stelpa, sem einnig býr á svæðinu, sagði við mig að hún væri mjög ánægð í skólanum sínum. Sá skóli er í öðru hverfi og hún var að segja mér hvað henni liði vel þar. Þar væri hún að læra á tölvur og færi einnig í danstíma. Í kjölfarið bað ég móður mína að skrá mig í þennan skóla líka. Hún hafði áhyggjur af því að skólinn myndi vera of kostnaðarsamur og hún var hikandi að nefna þetta við föður minn. Við erum svo fátæk. Ég varð mjög leið yfir þessu.

Ég bað stelpuna að koma og ræða við móður mína um skólann. Hún kom í kofann okkar og sagði mömmu að það kostaði ekki neitt að fara í skólann. Hún sagði að það væri hægt að búa á svæðinu og það kostaði ekki neitt heldur. Samt var móðir mín pínu hikandi því skólinn er í talsverðri fjarlægð frá þorpinu okkar og ég er bara lítil stúlka. Hún frétti þá að mörg börn á mínum aldri eru þarna og því sagði hún föður mínum frá skólanum. Þau ræddu enn og aftur við stelpuna og svo síðar meir við þorpsleiðtoga okkar. Þeim var sagt að skólinn bæri nafnið „Heimili friðar“ og fólkið þar væri mjög ástríkt. Þetta væri öruggur staður og mjög góður fyrir börn. Þau samþykktu því að ég færi þangað.

Fyrsti dagurinn minn var samt erfiður. Ég hafði aldrei áður verið svona langt í burtu frá foreldrum mínum. Það tók þó ekki langan tíma fyrir mig að verða ánægð. Kennararnir og húsmóðirin hjálpuðu mér mikið. Húsmóðirin er nú í raun bara mamma mín á Heimili friðar.

Ég hlakka mikið til að byrja í sjötta bekk því þá læri ég á tölvur. Ég vil helst af öllu klára námið mitt á Heimili friðar. Svo er það draumur minn að verða kennari í þorpinu okkar.