Ekkert utan seilingar með góðri menntun - ABC barnahjálp

Ekkert utan seilingar með góðri menntun

Ekkert utan seilingar með góðri menntun

Moses er sjö ára gamall strákur sem býr í Úganda. Hann á sex systkini og hann býr í húsi með þremur litlum herbergjum og engu eldhúsi. Öll eldamennska þarf að fara fram í stofunni. Josephine, mamman, er eina fyrirvinnan eftir að faðirinn stakk af í faðm yngri konu og hann veitir engan stuðning. Josephine neyddist til að taka lán til að hafa efni á grunnþörfum fjölskyldunnar en þegar hún gat ekki staðið við greiðslur var henni stungið á bak við lás og slá. Elsti sonurinn, Kevin, sá enga aðra leið en að hætta í skóla og fara að vinna til að sjá fjölskyldunni farborða.

Eftir nokkurra mánaða fangelsisvist var Josephine sleppt úr haldi en nú hefur heilsu hennar hrakað all verulega. Hún vinnur nú erfiðisvinnu og þénar um 115 krónur á dag og dugar það fyrir einni máltíð á línuna á dag. Börnin deila tveimur rúmum og nota gömul teppi sem yfirbreiðslu. Til að nálgast vatn ferðast þau um 500 metra í þorp þar sem brunnur er.

Þrátt fyrir alla erfiðleikana er fjölskyldan þakklát fyrir sitt og horfir björtum augum á framtíðina. Moses er í skóla á vegum ABC barnahjálpar og tvö systkini hans einnig. Á einni myndinni má sjá stolt börnin í nýju skólabúningunum sínum og þau eru uppfull af væntingum fyrir framtíðina. Josephine vildi koma á framfæri kærri kveðju til styrktaraðila barna sinna og þakka þeim kærlega fyrir að veita börnum sínum tækifæri til að mennta sig. „Með góðri menntun er ekkert utan seilingar“, segir hún og það er hverju orði sannara.

      alt       alt