Forseti Íslands gangsetur Börn hjálpa börnum - ABC barnahjálp

Forseti Íslands gangsetur Börn hjálpa börnum

Forseti Íslands gangsetur Börn hjálpa börnum

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setti formlega af stað söfnunina Börn hjálpa börnum í Áslandsskóla í Hafnarfirði í dag. Þessi árlega söfnun ABC barnahjálpar er unnin í samstarfi við grunnskóla landsins og er nú haldin í tuttugasta skiptið. Frá upphafi hafa nemendur safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum.

„Það getur enginn skipað okkur að hjálpa til eða gera góðverk. Við veljum að gera það sjálf,“ sagði Guðni þegar hann hélt smá tölu fyrir nemendur Áslandsskóla. Svo vísaði hann í að allir réðu sínu áleggi sjálfir á flatbökur sínar. Forseti setti svo fyrstu seðlana í söfnunarbauka hjá nemendum Áslandsskóla. Að formlegum viðburði loknum gaf hann sér stund til að ræða við nemendur, veita viðtal og sitja fyrir á nokkrum myndum.

  

Söfnunin hefur verið hreint ómetanleg fyrir starfsemi ABC barnahjálpar. Fyrir söfnunarféð í gegnum árin hafa skólabyggingar verið byggðar og hægt hefur verið að sinna miklu viðhaldi. Keypt hafa verið húsgögn, skrifborð, stólar og rúm sem hafa nýst öllum skólunum. Eitt sinn var söfnunarféð notað til matarkaupa fyrir skólabörnin og þá voru keyptir um 165.000 matarskammtar. Á síðasta ári söfnuðust tæpar 8 milljónir króna og fóru m.a. í uppbyggingu heimavistar í Pakistan, efnafræðistofu í ABC skólanum í Nairobi í Kenýa og til uppbyggingar heimavistar í ABC skólanum í Namelok í Kenýa. Það sem safnast núna mun vera ráðstafað til að styrkja innviði skólastarfs ABC í Afríku og Asíu.

Tala barna sem eru útilokuð frá skólagöngu er óhuggulega há en hún er vel yfir 100 milljónir á heimsvísu. Án hjálpar í formi menntunar eru þau ófær um að brjótast út úr vítahring fátæktar. Nemendur í grunnskólum á Íslandi leggja sitt svo sannarlega á vogarskálarnar og við hjá ABC barnahjálp þökkum þessum mikilvægu sendiherrum starfsins kærlega fyrir þeirra aðstoð.

Hægt er að leggja söfnunni lið með því að leggja inn á reikning: 0515-14-110000 Kt: 690688-1589