Frá Reykjavíkurmaraþoni til Pakistan - ABC barnahjálp

Frá Reykjavíkurmaraþoni til Pakistan

Þann 24.ágúst næskomandi munu hraustir hlauparar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar ABC barnahjálp. Peningurinn sem safnast með áheitum á hlauparana okkar munu fara í uppbyggingu á skólastarfi í Pakistan. Okkur langar að segja ykkur aðeins betur frá starfinu okkar þar.

Rasta Foundation of Pakistan

ABC hóf samstarf við frjálsu félagasamtökin Rasta foundation of Pakistan árið 2018. Rasta hefur starfað í Pakistan frá árinu 2009 og markmið þeirra er að hjálpa svokölluðu múrsteinabörnunum að fá menntun og frelsi.

Skólinn er í héraði, sem heitir Sheikhupura, þar sem flestar fjölskyldur eru skuldum vafðar við verksmiðjueigendur. Þar fá börn kennslu í dagskóla frá leikskóla upp í 10. bekk. Læra þau Urdu, ensku, stærðfræði, ljóð og myndlist, félagsfræði, trúabragðafræði, vísindi, landafræði, sögu og tölvukennslu.  Í skólanum geta þau klárað ígildi gagnfræðaskólanáms og  er námið bæði bóklegt og verklegt. Þessi börn eiga það sameiginlegt að þau hafa ekki fengið neina kennslu á nokkurn hátt áður en þau koma í Rasta skólann.

Rasta Foundation Brick Kiln Slaves School var stofnað 2009 en upphafsmaður starfsins er kristinn prestur, Shamoun Chand. Chand ólst upp í nágrenni múrsteinaverksmiðjanna og sá þörfina hjá þessum afskipta hópi barna, sem voru án réttar og náms.

Skólinn byrjaði í litlu húsnæði með þrjá kennara. Árið 2013 komu sænsk samtök og byggðu nýja skólabyggingu fyrir samtökin, sem var vígð 28. nóvember 2013.  Skólinn hefur vaxið jafnt og þétt og í dag eru yfir 200 nemendur og 18 kennarar og starfsmenn.

Ákveðið hefur verið að taka inn nýjan bekk með 30 börnum svo alls munu 230 fátæk börn stunda nám í skólanum næsta skólaár. Til þess að uppfylla skilyrði stjórnvalda er nauðsynlegt að bæta við 10. bekk fyrir börnin. Svo að skólinn bjóði upp á heilstæða menntun frá 1 til 10. bekk.  Kostnaður við að gera nýja skólastofu fyrir börnin er þó nokkur. Einnig er nauðsynlegt að kaupa skólaborð og stóla fyrir nýju börnin 30.

Hlaupið fyrir nýrri skólastofu

Það geta vonandi sem flestir lagt sitt af mörkum til að við náum því markmiði að útbúa nýja skólastofu og laga þaksvæðið. Hægt er að heita á hlauparana sem hlaupa til styrktar ABC í Reykjavíkurmaraþoni  og upphæðin getur verið frá 1000 krónum og upp. Margt smátt gerir eitt stórt og í þessu tilviki gerir margt smátt nýja skólastofu sem á heldur betur eftir að koma í góðar þarfir. Hér má fara beint inn á síðuna til að heita á hlauparana en þeir eru um fjörutíu talsins og fer fjölgandi.
Skildu eftir svar