Franskan er málið í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Franskan er málið í Búrkína Fasó

alt

Nýtt skólaár hófst 3. október síðastliðinn í ABC skólanum í Búrkína Fasó og nemendur voru hæstánægðir með að mæta í skólastofurnar á nýjan leik. Enn ánægðari, ef eitthvað er, voru þeir 70 nýju nemendur sem mættu á svæðið til að hefja nám og þeir vita að spennandi tímar eru fram undan. Eitt af fyrstu málum á dagskrá hjá þeim er að læra frönsku. Alls eru töluð rúmlega 70 tungumál í landinu og það getur verið hægara sagt en gert að koma skilaboðum áleiðis en í einum bekk geta verið börn sem tala 5-6 mismunandi tungumál. Guðný Ragnhildur Jónasdóttir, annar forstöðumanna skólans, sagði í viðtali að “kennarinn þarf að sameina þetta allt þannig að þetta hlýtur að vera mjög erfitt í fyrsta og öðrum bekk en einhvern veginn hefst þetta”.

Einn af nýju nemendunum í skólanum, Alassane Konate, er 6 ára gamall og hann talar frumbyggjamál sem nefnist Dafing. Alls búa tæpar 17 milljónir í landinu og um 135.000 tala þetta tungumál eða innan við 1%. Dafing mállýskan einskorðast við múslima í landinu.

Færri en 15% landsmanna notast við frönsku í daglegu tali en mikill vilji er fyrir því að hafa hana sem helsta tungumál landsins. Heimamenn vilja síður að börnin læri tungumál sem þau þegar kunna og franskan auðveldar þeim öll tengsl við umheiminn.