Fréttir frá Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Fréttir frá Búrkína Fasó

Hjónin Hinrik og Gullý, sem reka ABC skólann í Búrkína Fasó hafa ekki getað ferðast þangað undnanfarna mánuði vegna Covid-19 farsóttarinnar. En í stað þess hafa þau haft vikulega fundi með starfsfólki ABC í Búrkína Fasó, og þá sérstaklega með Kadi sem er framkvæmdastjóri starfsins. Auk þess hafa þau flesta daga sinnt verkefnum fyrir Búrkína Fasó frá skrifstofu þeirra hérna á Íslandi. Hjarta og hugur þeirra hefur þó verið í Búrkína Fasó og fékk Hinrik loks tækirfæri til að fara út og er staddur í þar þegar þetta er skrifað.

Markmiðið er að gera nemendum fært að standa á eigin fótum í framtíðinni

ABC Skólinn í Búrkína Fasó er rekinn sem leikskóli og grunnskóli. Þegar 10. bekkingar útskrifast úr skólanum fá þau skírteini því til staðfestingar. Reynt er að aðstoða þessa nemendur til að komast inn í framhaldsskóla í borginni.

 Markmið skólastjórnenda og kennara er að byggja heilsusamlegt og gott skólakerfi sem tekur við nemendum frá 3ja ára aldri og til loka grunnskóla. Alltaf er leitast við að bæta gæði menntunar í skólanum og veita nemendum eins góða menntun og mögulegt er.

Markmiðið  er einnig að veita þeim kristilega fræðslu þannig að nemendur kynnist elsku Jesú Krists og einnig að búa nemendur undir lífið og gera þeim fært að standa á eigin fótum og sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Gaman er að nefna einn nemanda sem er fatlaður. Hann var í  nokkur ár í ABC skólanum og stóð sig vel í námi. En þar sem veikindi hans hafa haft mikil áhrif á líf hans, bein brotna til dæmis mjög auðveldlega átti hann erfitt með að koma í skólann. Faðir hans nefndi að drengurinn gæti setið fyrir utan kofann sem þeir búa í og selt hluti. Járnsmiðurinn okkar í skólanum bjó til lítið eins herbergja járnhús handa honum þar sem hann getur geymt hlutina sína og verið inni eða setið fyrir utan og selt hlutina sína, hvort sem það rignir eða sólin skíni.Svo nú er hann „Litli kaupmaðurinn“ okkar. Honum líður vel í þessu hlutverki sínu, stgendur sig vel og er í góðri umsjá fjölskyldu sinnar.

Nemendur sem ekki geta stundað hefðbundið nám, fá tækifæri til að hefja verklegt nám þegar þeir eru 12-13 ára gamlir og veita þeim verklega færni sem gerir þeim kleyft að sjá fyrir sér.

Skólaönnin hófst þann 5. janúar 2021 og þrátt fyrir Covid-19 farsóttina höfum við getað haft skólann opinn og starfandi alla önnina. Leikskólinn gerði hlé á starfsemi sinni og fór í sumarfrí þann 31. maí sl. Grunnskólanum var slitið í enda júní en nemendur í 10. bekk tóku þá samræmd próf.

Á árinu 2020-2021 voru um 700 börn studd til náms í Búrkína Fasó, af íslenskum stuðningsaðilum.

Gestir

Í janúar síðast liðnum heimsótti okkur verklýðsfulltrúi stjórnvalda sem kom með gagnlegar leiðbeiningar varðandi starfsemi okkar.

Í apríl síðast liðnum komu í heimsókn þeir Gilbert Sanou sem starfar fyrir menntamálaráðuneyti stjórnvalda og Hippo Bambara en þeir eru báðir í stjórn ABC Búrkína Fasó. Þeir ræddu bæði við kennara og nemendur og hvöttu þau áfram. Einnig kom eftirlitsmaður stjórnvalda í sína árlegu heimsókn. Hans hlutverk er að líta til með starfi kennara og vera ráðgefandi varðandi starf þeirra.

Önnur starfsemi skólans árið 2021

Rafmagnsnotkun

Mörg starfsemi skólans er háð rafmagni sérstaklega tölvunotkun og tónlistarkennslan. En rafmagnið datt oft út og við áttum við bilun að stríða í kerfinu. Af þeim sökum þurftum við að kaupa ný og aflmeiri batterí en þau eru tengd sólarraforkustöðvum sem eru staðsettar í orkuhúsinu á ABC landsvæðinu.

Íþróttaiðkun nemenda

Grunnskólanemendur kepptu í árlegri fótboltakeppni þjóðarinnar. Þeir töpuðu naumlega eða með 2:1. Íþróttaþjálfun skólans var haldið úti allt árið. Og þar að auki var íþróttakeppni og útilegur. En einnig var sérstök dagskrá fyrir eldri nemendur í bænum.

Menningarleg þátttaka nemenda

Nemendur voru þjálfaðir í menningarlegri þátttöku en um var að ræða bæði þjálfun í leikritagerð og ræðumennsku. Við tókum líka þátt í alþjóðlegri lista og menningarsamkeppni. Nemendur fögnuðu sigri með „slam“tónlistaratriði sínu.

Vika fangnaðarerindisins

Þessi vika var skipulögð af GBS Biblíuskólanum þar sem nemendur tóku þátt og fengu þjálfun í boðun fagnaðarerindisins.

Tónlistarkennsla

Tónlistarstarfseminni var haldið úti allt árið. Við hófum gerð tónlistarmyndbanda. Tónlistarþjálfunin gekk vel og má nefna að nemendur leikskólans voru sérstaklega fljótir að ná tökum á kennsluefninu.

Gámurinn frá Íslandi

Þann 28.apríl 2021 barst gámur frá ABC barnahjálp á Íslandi til ABC skólans í Búrkína Fasó. Við vorum bæði himinlifandi og mjög þakklát fyrir þessa góðu sendingu. Allar stelpurnar fengu nýja skó og flestir strákanna. Við keyptum skó fyrir þá drengi sem ekki fengu þá með þessari sendingu. Auk þess fengu yngri börnin einkennisbúninga o.fl o.fl. Nú eiga öll ABC börnin nýja skó. Við flytjum ykkur kærar  þakkir frá ABC-börnunum, fyrir gjafirnar í gámnum.

Við gátum einnig gefið hverju barni um það bil 7 banana af bananaakrinum okkar auk þess sem hvert barn fékk mangó úr garði Hinriks og Gullýar.

Dreifing matvæla vegna Covid-19 farsóttarinnar

Vegna Covid-19 hafa margir foreldrar nemenda okkar misst vinnuna og því orðið tekjulausir. Til að bæta gráu ofan á svart hófst regntímabilið seint og rigndi svo mikið á stuttum tíma að meginn þorri uppskerunnar eyðilagðist. Við brugðum á það ráð að kaupa 100 poka af korni sem vógu 100 kg hver og gáfum öllum fjölskyldum nemendanna 20 kg. af korni. Starfsfólk ABC og foreldrasamtök nemenda ABC skólanna sáu um dreifingu kornsins.

Heimili stúlknanna í Líflandi

Í janúar 2021 buðum við 6 nýjum stúlkum búsetu í kvennahúsinu á Líflandi. Þær eru nú orðnar 14 að tölu sem þar búa. Þeim gengur öllum mjög vel.

Þar vorum við þó að glíma við rafmagnsleysi vegna þess hve lítil sólarrafhlaðan í Líflandi var. En íslenska Utanríkisráðuneytið veitti okkur styrk í apríl til að kaupa sólarrafhlöðu og tilheyrandi búnað. Nú njóta stelpurnar góðrar birtu á kvöldin og geta unnið heimavinnuna þegar þær koma úr skólanum á daginn. Þær luku einnig námskeiði í sumarfríinu sínu, þar sem þær lærðu að hekla og baka. Þær voru bæði námsfúsar og fljótar til. En þessi kunnátta getur komið þeim að góðum notum í framtíðinni við að afla sér tekna til lífsviðurværis. Í ágúst síðast liðnum nutu þær sumarfrís með fjölskyldum sínum.

Núverandi aðstæður í Búrkína Fasó

Þjóðin hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna hryðjuverkaárása undanfarin ár. Nokkrir hópar hryðjuverkamanna hafa reynt að ná undir sig landsvæðum þar sem finna má gullnámur. Þeir ganga hart að íbúum þessara svæða og svífast einskis til að ná fram fyrirætlunum sínum. Svæðið sem ABC skólinn er í hefur þó enn alveg sloppið og erum við Guði þakklát fyrir það.




Skildu eftir svar