Michael Anthony Dela Cruz er eitt þeirra stuðningsbarna sem má með sanni segja að sé fyrirmyndarnemandi. Það er líka óhætt að fullyrða að hann sé prýðilegt dæmi um einstakling sem hefur lagt hart að sér til að ná þeim markmiðum sem hann setti sér til að láta drauma sína rætast. Hann gafst ekki upp þegar á móti blés.
Michael hefur notið stuðnings í sautján ár, eða síðan hann var lítill strákur. Hann er innilega þakklátur stuðningsaðilum sínum sem hafa beðið fyrir honum og stutt hann öll þessi ár. „Mig langar til að nota tækifærið og segja ykkur hversu þakklátur ég er fyrir að hafa verið stuðningsbarnið ykkar. Þakka ykkur fyrir kærleikann, umhyggjuna, stuðninginn og síðast en ekki síst fyrir bænirnar. Ekki veit ég hvað orðið hefði um mig ef samkenndar ykkar og kærleika hefði ekki notið við. Ég er ykkur einlæglega þakklátur, elskulega fólk, fyrir að hafa stutt mig dyggilega allan þennan tíma og ég lofa að ég mun aldrei valda ykkur vonbrigðum. Hvorki ykkur, fjölskyldu ykkar né guði sem fylgst hefur með því hvernig líf mitt hefur tekið stakkaskiptum. Kærar þakkir og megi guð blessa ykkur öll.“

Aðspurður hvernig námið hafi gengið fyrir sig svarar Michael: „Það var enginn dans á rósum. Sérstaklega ekki þegar verulega reyndi á fjárhagslegu hliðina.“ Þegar hann var á þriðja ári í háskólanum munaði minnstu að hann þyrfti að hætta námi því fjölskylda hans var í fjárhagskröggum. Móðir hans hefur verið einstæð frá því að faðir hans yfirgaf þau. Það reyndist henni erfitt að standa straum af skólagjöldum og því var tvísýnt með námið á tímabili. Michael varð afar dapur og segir að sér hafi liðið eins og heimurinn væri á heljarþröm. Hann hélt að draumar hans yrðu ekki að veruleika. Þá fékk hann þá hugmynd að finna sér hlutastarf sem hann gæti stundað samhliða námi. Til allrar hamingju fékk hann vinnu sem þjónustufulltrúi. Þannig gat hann haldið áfram námi og aðstoðað móður sína fjárhagslega. Elja hans, þrautseigja og staðfesta komu honum í gegnum námið og þann 22. maí síðastliðinn útskrifaðist hann með BS gráðu í viðskiptafræði frá háskólanum á Filippseyjum (National University). Hann er nú þegar kominn með vinnu á sviði viðskiptafræðinnar.