Giljaskóli hleypur til góðs - ABC barnahjálp

Giljaskóli hleypur til góðs

Giljaskóli hleypur til góðs

Norræna skólahlaupið er árlegur viðburður og fór fyrst fram árið 1984. Allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt og hefur þátttaka íslenskra grunnskólanemenda verið mjög góð í gegnum árin. Með þessum viðburði er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Í skólahlaupinu árið 2007 ákváðu kennarar í Giljaskóla á Akureyri að safna áheitum og styrkja til náms tvo nemendur hjá ABC barnahjálp. Sú söfnun hefur ávallt verið tengd skólahlaupinu en breyting hefur verið á fyrirkomulaginu undanfarin tvö ár þar sem söfnunin hefur hafist að hlaupi loknu.

Nemendur hlaupa einn til fjóra „skólahringi“ og er einn hringur um 2.5 kílómetrar. Nemendur og starfsmenn eru hvattir til að gefa smá aur í söfnunarbauka og þökk sé þeim framlögum hefur verið hægt að greiða fyrir skólagöngu tveggja barna í námi á vegum ABC. Árið 2007 voru Udaya Lakshmi Gajjelagunta og Vincent Obita styrkt til náms. Udaya er frá Indlandi og Vincent er frá Úganda og hafa nemendur og starfsmenn Giljaskóla styrkt þau allan þeirra skólaferil. Þau hafa lokið sínu námi í ABC skólunum og í dag styrkir Giljaskóli tvo nýja nemendur; þær Venkateswaramma Ramma og Kevine Jenneth Akello en þær eru einnig frá Indlandi og Úganda.

alt    alt

Nemendur í Giljaskóla fá alltaf kynningu á börnunum sem þeir styrkja og áhuginn og viljinn til að halda því áfram lýsir sér vel með mikilli þátttöku í árlega hlaupinu og áheitum sem ár eftir ár eru nægilega mikil til að viðhalda framfærslunni .Nemendur ABC skólanna senda ávallt jólakort og nemendur Giljaskóla hafa sömuleiðis útbúið kort og nú síðast sendu þeir einnig pakka með smávegis af ritföngum handa Venkateswaramma og Kevine.

alt

Hér er svo sannarlega hlaupið til góðs og við þökkum nemendum og starfsmönnum Giljaskóla fyrir þessa dýrmætu gjöf sem gefur fátækum börnum tækifæri á góðri framtíð.