Giljaskóli styrkir börn til náms - ABC barnahjálp

Giljaskóli styrkir börn til náms

Nemendur og starfsmenn Giljaskóla á Akureyri hafa frá árinu 2007 styrkt 2 börn í ABC skólunum okkar. Árið 2007 voru Udaya Lakshmi Gajjelagunta og Vincent Obita styrkt til náms. Udaya er frá Indlandi og Vincent er frá Úganda og hafa nemendur og starfsmenn Giljaskóla styrkt þau allan þeirra skólaferil. Þau hafa lokið sínu námi í ABC skólunum og í dag styrkir Giljaskóli tvo nemendur; þau Ibrahim Famba Mohamed og Kevine Jenneth Akello en þau eru bæði frá Úganda.

Einu sinni á ári er haldin söfnun í Giljaskóla og greiða þau 84.000 kr til styrktar þessum tveimur börnum. Með því fá styrktarbörninn meðal annars skólagöngu, skólabúning, máltíð og heilsugæslu í heilt ár.

Nemendur í Giljaskóla fá alltaf kynningu á börnunum sem þeir styrkja og áhuginn og viljinn til að halda því áfram lýsir sér vel með mikilli þátttöku í söfnuninni sem ár eftir ár er nægilega mikil til að viðhalda framfærslunni.Nemendur ABC skólanna senda ávallt jólakort og nemendur Giljaskóla hafa sömuleiðis útbúið kort og nú síðast sendu þeir einnig pakka með smávegis af ritföngum handa Ibrahim og Kevine.

Við hjá ABC barnahjálp erum mjög þakklát nemendum og kennurum Giljaskóla fyrir þetta frábæra framtak þeirra.