Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, eða Heimsmarkmiðin, ættu að vera flestum kunn en með þeim er stigið skref í átt að því að losa mannkynið undan ánauð fátæktar og að græða jörðina og auka öryggi hennar. Eins og segir orðrétt á síðu Sameinuðu þjóðanna: „Við einsetjum okkur að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar.“
Markmiðin eru 17 talsins og undirmarkmiðin 169 og HÉR má sjá yfirlit yfir þau. ABC barnahjálp leggur mikið upp úr að vera virkur þátttakandi í að ná þessum markmiðum og er alltaf gaman að sjá hvernig hægt er að ná ótrúlegum árangri þegar allir eru samstíga. Fyrir skemmstu fóru tveir starfsmenn ABC barnahjálpar, þær Laufey Birgisdóttir og Íris Ósk Friðriksdóttir til Filippseyja þar sem þær sátu námskeið um Heimsmarkmiðin og unnu hópverkefni þeim tengd. Þar hittu þær fyrir og ræddu við skólastjórnendur í ABC skólum frá Bangladess og Pakistan um það hvernig gengi að ná markmiðunum.

Markmiðin sem um ræðir eru eftirtalin:
- Engin fátækt
- Ekkert hungur
- Heilsa og vellíðan
- Menntun fyrir alla
- Jafnrétti kynjanna
- Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
- Sjálfbær orka
- Aukinn jöfnuður
- Aðgerðir í loftslagsmálum
- Líf í vatni
- Líf á landi
Mary Minakkhi á Heimili friðar í Bangladess sagði frá hvernig gengi og var byrjað á að ræða fyrsta markmiðið sem er að draga úr fátækt.
„Við kennum nemendum hvernig rækta megi grænmeti á ökrunum. Þannig geta þeir skapað tekjur. Við kennum þeim líka lífræna jarðrækt. Lífræn jarðrækt er nefnilega hagkvæm því ekki þarf að kaupa kemískan áburð eða skordýraeitur. Nemendur læra líka að halda og annast búpening. Það sem dýrin gefa af sér nýtist þeim og það má líka selja afurðirnar. Þannig má búa til tekjur,“ segir hún og vissulega er það jörðinni okkar í hag að sem flestir stundi lífræna ræktun án eiturefna.

Mary benti á mjög áhugaverðan punkt þegar rætt var um næsta markmið; ekkert hungur. „Önnur hlið á því að vinna gegn hungri er að kenna nemendum að sóa ekki mat. Í sumum þorpunum fá fjölskyldur ekki að borða á hverjum degi. Þegar þau fá svo mat reyna þau að borða eins og þau geta en líkaminn þolir það ekki og næringin nýtist ekki eins og hún ætti að gera. Þetta er matarsóun og við viljum kenna þeim að spara frekar matinn og nýta hann betur. Það sem fellur til í eldhúsinu hér, eins og til dæmis kartöfluhýði og annað lífrænt má endilega nýta sem áburð í jarðræktina. Það er hagkvæmt að rækta sem mest sjálfur og við leitumst við að gera það eins og við getum á landsvæði skólans og eflum sjálfbærni okkar um leið.“ Já, þetta tengist heldur betur heildarmyndinni og kjarnanum í Heimsmarkmiðunum sem er að koma veröldinni á braut sjálfbærni.
Menntun fyrir alla er markmið sem þau vinna af kappi að og þar spilar skemmtilega saman menntun barna og foreldra: „Hér fá nemendur afbragðsgóða kennslu og við erum einnig með verkefni sem gagnast samfélaginu öllu en það felst í lestrarkennslu fyrir fullorðna. Þau læra að lesa og skrifa og því næst geta þau fengið frekari kennslu þar sem við eflum samfélagsvitund þeirra, ræðum um heilsufarsmál, nýtingu vatns og hreinlætismál. Þetta verkefni er strax farið að gefa af sér því nokkrar mæður hafa tekið að sér að hjálpa börnum með heimanámið að skóladegi loknum,“ segir Mary.
„Hér er unnið að jafnréttismálum. Við kennum nemendum hvernig stuðla má að jafnrétti kynjanna bæði hér í skólanum og úti í samfélaginu. Það er gríðarlega mikilvægt því hér í Bangladess þykir það sjálfsagt að karlmaðurinn ráði öllu. Þess vegna er svo mikilvægt að nemendur séu meðvitaðir og þekki rétt sinn. Það eru ekki bara stúlkurnar sem þurfa að læra um jafnrétti heldur drengirnir líka. Við komum ekki á jafnrétti nema bæði kynin leggi sitt af mörkum,“ segir hún.
Hreint vatn og hreinlæti er stór þáttur í því að ná heimsmarkmiðunum og vandinn er mikill víða í Bangladess, segir Mary. „Víða í sveitum telur fólk hreinlæti ekki mikilvægt og hreinlætisaðstaða er ekki til staðar. Fólk veikist auðveldlega þegar ekki er hugað að hreinlæti. Fólk neytir óhreins vatns og sums staðar er arsenikmengað vatn sem er auðvitað stórhættulegt. Við leggjum okkar af mörkum til að hjálpa fjölskyldum og erum að koma upp salernisaðstöðu í einu þorpinu þar sem tíu fjölskyldur búa.“
Lífið í vatni, á jörðu og loftslagsmál eru samtengd og Mary útskýrir vel hvernig þetta samspil gagnast við kennsluna: „Við fræðum nemendur um loftslags- og umhverfismál og hvað hver og einn getur gert til að bjarga jörðinni okkar. Til dæmis með því að ganga vel um umhverfið, draga úr mengun, henda ekki rusli út í náttúruna sem og að flokka rusl. Við flokkum sorpið á heimavistinni og í skólanum. Margt má endurnýta og það gerum við eins og við getum. Við leggjum mikið upp úr því að nemendur læri hvernig nýta má náttúruauðlindirnar. Til dæmis með því að veiða fisk í nálægum tjörnum. Við leggjum líka áherslu á að virða lífið í vötnunum og mikilvægi þess að menga ekki tjarnirnar. Við gróðursetjum tré á hverju ári og er það liður í að stuðla að betra umhverfi. Nemendur læra um mikilvægi þess að rækta plöntur og tré. Þeir læra hvernig má bæta umhverfið, stuðla að friði og auka réttlæti og jöfnuð,“ segir Mary Minakkhi frá Heimili friðar í Bangladess að lokum.
Hinn viðmælandinn er Henny Qaiser en hún starfar við Rasta Foundation Brick Kiln Slaves School í Pakistan sem ABC rekur í samstarfi við frjálsu félagasamtökin Rasta Foundation of Pakistan. Henny fór yfir hvernig gengi að ná Heimsmarkmiðunum: „Það er aðalmarkmið okkar að gefa fátækustu fjölskyldunum von. Með menntun geta fjölskyldur öðlast betra líf. Hér í Pakistan er menntun lykillinn að því að komast út úr fátæktinni og því myndi ég segja að það sé mikilvægasta atriðið,“ segir hún.

„Hvað viðvíkur næsta markmiði, að útrýma hungursneyð, þá var það þannig áður að við gátum bara boðið upp á eina máltíð í viku en samstarfið við ABC barnahjálp á Íslandi gerir okkur mögulegt að bjóða upp á fjórar máltíðir í viku. Þetta eru góðar heitar máltíðir og stundum eru ávextir líka á boðstólum. Markmiðið er að hafa heitan mat alla virka daga. Alla jafna fara börnin á fætur með foreldrum sínum klukkan fjögur á morgnana og borða þá matarafganga frá kvöldinu áður og fá ekki að borða fyrr en að kvöldi dags. Þess vegna er máltíðin sem þau fá í skólanum afar mikilvæg. Við viljum draga úr hungrinu og efla heilsu barnanna,“ segir Henny.
„Til okkar kemur reglulega læknir, gefur þeim lyf sem þurfa og skoðar börnin og veitir þeim læknisþjónustu sem á þurfa að halda. Í upphafi stóð til að fá hjúkrunarfræðing í þessar reglulegu heimsóknir en pakistönsk yfirvöld gera þá kröfu að læknir annist heimsóknirnar. Það er auðvitað kostnaðarsamara en þetta gengur og læknirinn kemur mánaðarlega,“ segir hún.

Henny er stolt af skólanum og má svo sannarlega vera það. Hún segist sjálf stundum furða sig á hvernig börnin fara að því að læra svona mikið og hratt! „Hvað menntunarmarkmiðin snertir þá get ég sagt að menntunin sem nemendur fá í þessum skóla er mjög góð. Hér læra þau ensku og auðvitað úrdú. Við fylgjum námsskránni og erum með mikið og gott námsefni. Þau læra mjög mikið og fara héðan með gott veganesti. Stundum skil ég varla hvernig þau fara að því að læra svona mikið en þau standa sig vel og skilja það sem fyrir þau er lagt. Í bekkjunum eru bæði drengir og stúlkur og engin mismunun. Þau fá sömu menntun.“
Að lokum var rætt um þau markmið sem snúa að umhverfinu og ljóst er að það er viðamikið og hefur margt gott gerst á tiltölulega skömmum tíma en ABC hóf samstarfið við Rasta foundation of Pakistan árið 2018: „Við höfum betra aðgengi að vatni en áður og þökk sé ABC þá fáum við nú enn betra og hreinna vatn eftir að borað var dýpra eftir því. Börnin geta fengið sér kalt og gott vatn úr drykkjarstöndum sem settir voru upp í skólanum. Það er mjög mikilvægt að hafa gott vatn því eins og við vitum má rekja ýmis veikindi til neyslu á óhreinu vatni eins og lifrarbólgu og niðurgangspestir. Við leggjum áherslu á að kenna börnunum að bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Skólinn er eins og vin í eyðimörkinni. Hann er hreinn, aðlaðandi og mjög vel skipulagður. Kennararnir hér standa sig með stakri prýði. Við höfum lagt nokkuð upp úr hagnýtu verknámi og til dæmis boðið upp á kennslu í hannyrðum en við eigum eftir að útfæra þetta betur. Hugmyndirnar eru alla vega margar. Hvað endurnýjanlega orku varðar þá erum við að hugsa um sólarsellur og það myndi koma sér vel ef við gætum nýtt sólarorkuna. Það er í bígerð,“ segir Henny Qaiser í Rasta Foundation Brick Kiln Slaves School í Pakistan.