Systkinin Ísold (22 ára), Nökkvi (18 ára) og Ísak Norðfjörð (14 ára) ætla að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar ABC barnahjálp. Þau átta sig vel á því hvers virði hver króna er hjá stuðningsbörnum ABC en þau hafa einmitt haldið út og lagt hönd á plóg í ABC skólanum í Búrkína Fasó. „Það æxlaðist þannig að við fórum öll saman,“ segir Nökkvi. „Við vissum ekkert við hverju var að búast eða hvað við vorum að fara út í“, segir Ísold en þau systkinin héldu út ásamt foreldrum sínum og frændfólki í febrúar árið 2018 og heimsóttu Hinrik Þorsteinsson og Guðný „Gullý“ Ragnhildi Jónasdóttur sem eru stofnendur og forstöðumenn skólans.
Tekið til hendinni
Ferðin var mikil upplifun fyrir systkinin og hughrifin af ýmsum toga. „Ég upplifði mig svolítið þannig að fólkið í kringum mig liti upp til mín af því að ég var hvítur,“ segir Nökkvi. „Krakkarnir eltu okkur út um allt og við fengum mikla athygli en það var frábært að vera þarna,“ bætir Ísold við. Verkefnin í skólanum voru mörg og hart tekið á. „Já fullt af verkefnum. Það voru þarna fjórir smekkfullir gámar af alls kyns dóti sem þurfti að tæma. Við hjálpuðum til við að koma upp nýjum 5.000 lítra vatnstanki. Við settum ný net í körfunar á körfuboltavöllunum og ég hjálpaði til við að laga stólana í kirkjunni sem voru eiginlega að detta í sundur,“ segir Nökkvi. Ísold heldur svo áfram upptalningunni. „Við máluðum fótboltavöll, bjuggum til badminton völl og komum með netin og spaðana sem þurfti fyrir það, máluðum hliðið, gengum á milli og gáfum tannbursta og tannkrem. Einnig þurfti að flokka allt dótið sem kom úr gámunum og það var heilmikil vinna“. Ísak var með í öllum þessum verkefnum. „Ég eyddi líka heilmiklum tíma með krökkunum og kenndi þeim meðal annars skák,“ segir hann.
Hjálpsöm, glöð og þakklát
Systkinunum þótti mikið til barnanna koma en einlæg ánægja þeirra og brosmildi kom þeim í opna skjöldu. „Þau voru rosa þakklát…,“ segir Nökkvi og snögglega bætir Ísold við „…og hjálpsöm. Sama hvað við vorum að gera þá vildu þau ávallt hjálpa til.“ Þó að efnisleg gæði voru af skornum skammti vantaði ekki upp á hugmyndaauðgina og börnin gátu ávallt fundið eitthvað að gera sér til skemmtunar. „Það var eins og það væri miklu meira í boði þarna úti en á Íslandi. Þau spiluðu fótbolta með 500 ml flösku sem dæmi. Það var rosalega gefandi að sjá þetta,“ segir Nökkvi. „Þessi mikla gleði var þarna þó þau eigi varla neitt. Mörg þeirra voru bara á tánum og ekki í skóm. Þetta sýnir að það eru ekki peningarnir sem veita manni hamingju,“ bætir Ísold við.
Blákaldur veruleiki fátæktarinnar skýtur þó upp kollinum og það getur verið erfitt að meðtaka hann. „Kvöldið áður en við fórum heim heimsótti ég fjölskyldu. Og það var ótrúlegt. Það var um kvöld og eitt barnið var bara nakið að hlaupa um og það fékk á mig. Ég bara táraðist. Það hafði mikil áhrif á mig,“ segir Ísold.
Uppbyggingin kraftaverki líkust
Ísold, Nökkvi og Ísak eru mjög hrifin af því starfi sem Hinrik og Gullý hafa byggt upp. „Þau eru með svo skýr markmið. Það voru miklar framkvæmdir í gangi þegar við vorum þarna og nú sýna Hinrik og Gullý okkur myndir af framganginum og allt er að verða að raunveruleika. Þetta er svaka uppbygging og ótrúlega gaman að sjá,“ segir Ísold. „Þetta er kraftaverki líkast,“ bætir Nökkvi við. Systkinin telja sig öll hafa fengið góða áminningu um hve þakklát þau eiga að vera fyrir allt sem þau hafa. „Við höfum það svo gott hér,“ segir Ísak.
Ljóst í hvað peningarnir fara
Þann 24. ágúst næstkomandi ætla þau Ísold, Nökkvi og Ísak að hlaupa 10 km til styrktar ABC barnahjálp í Reykjavíkurmaraþoninu. „Eftir að hafa farið þarna út og séð hvað er í gangi þá er þetta einfaldlega eitthvað sem maður vill styðja,“ segir Ísold. „Á yngri árum vissi maður ekki hvernig þessi raunveruleiki væri. Núna hleyp ég fyrir ABC og ég veit hvað peningarnir hjálpa mikið til,“ bætir Nökkvi við. Fjölskyldan styrkir börn til náms í gegnum ABC barnahjálp og Ísold hvetur alla til að gera það. „Þetta starf er að skila miklum árangri. Margt smátt gerir eitt stórt og þarna byrjaði þetta sem einn lítill skóli og svo stækkaði þetta bara. Allir koma saman og hjálpast að,“ segir hún að lokum.
Hægt er að heita á hlaupara sem hlaupa til stuðnings ABC barnahjálp með því að smella hér.