Reykjavíkurmaraþon er einstök leið fyrir fólk til að láta gott af sér leiða með því að hlaupa í þágu góðs málstaðar eða styrkja góðan málstað með því að heita á hlaupara. Í ár taka 155 góðgerðafélög þátt í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons og er ABC stolt af því að vera þeirra á meðal.
Reykjavíkurmaraþon þekkja eflaust flestir en það hefur farið fram í miðbæ Reykjavíkur í kringum afmæli borgarinnar (sem er 18. ágúst) síðan árið 1984. Á síðu Reykjavíkurmaraþons er hægt að nálgast tölfræði um þátttökufjölda frá upphafi og er hreint magnað að sjá þann fjölda sem hleypur árlega. Fyrsta árið var þó ekki sérlega fjölmennt í hlaupinu en þá hlupu 214 manns. Árið 2016 hlupu 15.253 og verður gaman að sjá hve margir verða með í ár.
Sjö hraustir hlauparar ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar ABC barnahjálp. Við hvetjum ykkur til að heita á þetta góða fólk en áheitin renna til starfs okkar sem fer nú fram í sjö löndum og lesa má nánar um hér. Fleiri hlauparar eru sannarlega velkomnir í hópinn en hægt er velja á milli ýmissa vegalengda, frá 600 metra skemmtiskokki til 42,2 kílómetra maraþons. Til að hafa það á hreinu þá er Reykjavíkurmaraþon ekki eingöngu fyrir hlaupara í besta formi heldur ættu allir að geta fundið sér vegalengd við hæfi: 600 metra, 3 kílómetra, 10 kílómetra, hálfmaraþon (21,1 km) eða maraþon (42,2 km). Í skemmri vegalengdunum þykir sjálfsagt að ganga, skokka eða hlaupa. Maraþon og hálfmaraþon er fyrir vana hlaupara í góðri þjálfun.

Það er einfalt að heita á hlauparana okkar eða skrá sig sem hlaupara. Fyrst er að fara inn á vefsíðuna www.hlaupastyrkur.is. Til að heita á hlaupara sem hlaupa fyrir ABC barnahjálp er smellt á hlekk vinstra megin á síðunni þar sem stendur „Góðgerðarfélögin“. Þar kemur ABC fyrst upp og þegar smellt er á ABC má sjá þá sem hlaupa fyrir okkur og heita á þá eftir ýmsum leiðum. Hægt er að styrkja með SMS, debet- eða kreditkorti eða með greiðslu gegnum Kass. Að auki má sjá vegalengdina sem hver og einn hleypur, hve miklu hann hefur safnað, hvetja viðkomandi til dáða, líka við og deila á samfélagsmiðlum. Allt eftir því hvað hverjum og einum hentar. Bæði má styrkja undir nafni og styrkja nafnlaust.
Til að skrá sig í hlaupið er farið inn á sömu síðu og smellt á hlekk vinstra megin á síðunni þar sem stendur „skrá mig í hlaupið“ og við tekur skráningarferli sem kerfið leiðir mann einfaldlega í gegnum.
Þetta er ekki flókið en hver hlaupari skiptir máli og hvert áheit skiptir máli! Saman getum við veitt fjölda barna menntun sem er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.