Hleypur fyrir börnin - ABC barnahjálp

Hleypur fyrir börnin

Lífeindafræðingurinn Kolbeinn Sigurðsson er byrjaður að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið sem fram fer þann 18. ágúst næstkomandi. Hann er einn þeirra sem ætla að hlaupa fyrir ABC barnahjálp og fyrir það erum við afar þakklát. Kolbeinn mun hlaupa hálfmaraþon (21,1 km) og er hann vanur hlaupari.

Hjartans mál

Kolbeinn segir ríka ástæðu fyrir því að hann hafi valið að hlaupa fyrir ABC. „Það er mitt hjartans mál að styðja við bakið á börnum sem ekki eiga möguleika á námi,“ segir Kolbeinn. Sjálfur hefur hann stutt mörg börn í gegnum ABC og styður núna barn í Kenýa. Hann þekkir vel til starfsemi ABC og veit hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. „Þetta er frábært starf og vel rekið. Ég sat sjálfur í stjórn ABC fyrir nokkrum árum síðan og kynntist starfseminni vel. Það sem ABC er að gera hefur gert gæfumuninn fyrir heilu fjölskyldurnar,“ segir hann.

Kolbeinn segir það mikla blessun að samtök á borð við ABC barnahjálp séu til. „Það sem okkur þykir sjálfsagt, eins og að læra að lesa, skrifa og reikna, er alls ekki sjálfsagt í löndum eins og þeim sem ABC starfar í. Þar eru margir sem eiga ekki nokkra möguleika á að mennta sig og það er svo mikilvægt að gera það sem við getum til að styrkja þessi börn til náms,“ segir hann.

Áhrifaríkar heimsóknir

Löndin eru sjö sem ABC starfar í. Þau eru Bangladess, Búrkína Fasó, Filippseyjar, Kenýa, Indland, Pakistan og Úganda. Kolbeinn hefur heimsótt sum þessara landa sem trúboði og skoðað starfsemi ABC með eigin augum. Hann segir að það hafi verið mjög áhrifaríkt að sjá lífsbaráttu fólksins og aðstæður með eigin augum. „Til dæmis í Pakistan voru heilu fjölskyldurnar í þrældómi. Öll fjölskyldan að vinna fyrir skuld við landeigandann þar sem þau búa og fólkið veit sjaldnast hversu stór sú skuld var í upphafi. Þau kunna ekki að lesa og reikna og eru hreinlega föst í þrældómi,“ segir Kolbeinn.

Því miður er það raunin víða að öll fjölskyldan stritar t.d. fyrir landeiganda og ef um skuld er að ræða þá eru litlar líkur á að til sé einhver pappír um skuldina. Ef pappírinn er til þá er ólíklegt að fólkið kunni að lesa eða reikna stöðu skuldarinnar. Þetta er vítahringur fátæktarinnar. „Ef hægt er að koma einu barni úr slíkri fjölskyldu til mennta þá getur það breytt öllu,“ segir Kolbeinn og dæmin sýna og sanna að það er rétt. Menntun er öflugasta verkfærið í baráttunni við fátækt og þrældómi.

Myndir frá trúboðsstarfi í Tansaníu.

Tugir kílómetra á viku

Eins og sagði hér að ofan þá er Kolbeinn byrjaður að undirbúa sig fyrir hlaupið. Í því felst nú töluvert fleira en það að finna til hlaupaskóna í skápnum! „Ég æfi mig vel fyrir svona hlaup og hleyp eitt langt hlaup í viku og tvö til þrjú á milli,“ segir Kolbeinn. Hvað skyldi langt hlaup nú vera langt? Jú, það er vel yfir hálfmaraþon! „Í síðustu viku hljóp ég 24 kílómetra í langa hlaupinu og í næstu viku hleyp ég lengra.“ Þá eru stuttu hlaupin ekki talin með. Hann hleypur lengra eftir því sem nær dregur hlaupinu en styttra síðustu vikuna fyrir Reykjavíkurmaraþon. „Þá hleyp ég 18 kílómetra og svo hvíli ég vel í nokkra daga fyrir hlaupið.“

Hugarfar hlaupara er mikilvægt og ekki virkar að hlaupa bara einhvern veginn í hálfmaraþoninu sjálfu. Nei, það er skipulag að baki þessu, rétt eins og í öðrum íþróttum. „Ég hleyp fyrstu tíu kílómetrana frekar rólega og jafnt og þétt. Svo gef ég allt í og það er allt í botni síðustu tvo kílómetrana,“ segir Kolbeinn.

Maður skyldi ætla að það væri nánast full vinna að undirbúa sig fyrir hlaupið en þetta er langt frá því það eina sem Kolbeinn hefur fyrir stafni. Hann er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Líftækni sem flytur inn alls kyns tæki og tól fyrir heilbrigðisstofnanir. Kolbeinn er forstöðumaður Bænahússins sem er kristileg miðstöð en hann og eiginkona hans, Guðrún Erla Gunnarsdóttir, stofnuðu Bænahúsið árið 2006. Það er því nóg að gera á þeim bænum en alltaf má finna tíma til að gera gott.

Við hvetjum lesendur til að heita á Kolbein Sigurðsson og það góða fólk sem hleypur í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar ABC barnahjálp en það má gera með því að fara inn á vefinn www.hlaupastyrkur.is eða með því að smella hér. Áheitin eru mikilvægur liður í því að halda okkar góða starfi áfram og án ykkar væri þetta ekki hægt!

Hjónin Kolbeinn og Guðrún Erla ásamt börnum sínum fjórum.