Hin árlega söfnun Börn hjálpa börnum fór fram á vormánuðum eins og fyrri ár og stóðu krakkarnir sig ótrúlega vel að ganga í hús og safna. Þessi söfnun er okkur hjá ABC ótrúlega mikilvæg til að geta hjálpað til við uppbyggingu á þeim svæðum sem við störfum á og erum við börnunum og gefendum afskaplega þakklát fyrir sitt framlag. Án ykkar væri þetta ekki mögulegt.
Í ár söfnuðust 6.510.517 kr og hefur sá peningur heldur betur nýst vel.
Meðal annars höfum við keypt vasareikna fyrir nemendur í Pakistan, einnig var unglingum ásamt kennurum boðið á námskeið.
Í Kenía er verið að útbúa nýja heimavist ásamt því að keyptir verða nýir skólabúningar, skólabækur og íþróttavörur. Keypt var tölva ásamt tölvunámskeiði fyrir unglinga og ungfullorðna til að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði eftir skóla. Einnig var keypt myndavél svo hægt sé að taka betri myndir af nemendum og viðburðum sem þar eiga sér stað.
Á Indlandi var mikil þörf á viðhaldi á skólahúsnæði. Þar hjálpuðum við til með endurbætur á skólabyggingunni sem var öll máluð, lagaður var leki í þaki hússins og viðgerð á vatnsbrunni skólans.
Í Búrkína Fasó er verið að hækka öryggisvegg í kringum skólann til að auka öryggi nemenda og starfsfólks og var peningur úr söfnuninni nýttur í það.
Við gáfum starfinu í Filippseyjum nýja myndavél til að hægt sé að taka betri myndir af nemendum og viðburðum og erum nú þegar farin að fá myndir frá þeim teknar á nýju vélina.