Í hvað fer peningurinn? - ABC barnahjálp

Í hvað fer peningurinn?

Eðli máls samkvæmt viljum við flest vita í hvað fjárframlög fara þegar góðgerðarfélög eru styrkt. Þó er ekki alltaf hlaupið að því en í mörgum tilvikum er það tiltölulega ljóst. Þann 18. ágúst ætla hraustir hlauparar að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar ABC barnahjálp. Peningurinn sem safnast með áheitum á hlauparana okkar fara í sérstakt og alveg stórkostlegt verkefni í Búrkína Fasó. Okkur langar að segja ykkur nákvæmlega frá því hvernig peningunum verður varið og kynnum til leiks Lífland.

Hvað er Lífland?

Hjónin Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir (Gullý) halda utan um skólastarf í ABC skólanum Ecole ABC de Bobo í Búrkína Fasó. Þar hafa þau, ásamt fleira góðu fólki, unnið ótrúlegt starf síðastliðinn áratug og árangurinn er magnaður! „Við erum stór fjölskylda og höfum alltaf litið á það þannig,“ segir Hinrik en í skólanum eru rúmlega 600 nemendur þannig að fjölskyldan er stór. Við skólann er nokkuð stórt landsvæði og það stendur til að rækta upp og eru framkvæmdir þegar hafnar. Þar verður líka búskapur og nú þegar eru komnar 1500 hænur í hænsakofa sem búið er að reisa. Þetta er Lífland! Og þangað fer peningurinn sem safnast.

Hjónin Gullý og Hinrik

 

Á Líflandi verður líka byggð heimavist. „Þarna verður heimavist fyrir um tuttugu stúlkur,“ segir Gullý en Lífland verður eins konar deild við ABC skólann þar sem nemendur læra ýmislegt sem tengist landbúnaði. Þær stúlkur sem koma til með að búa á heimavistinni eiga það sameiginlegt að hafa verð hraktar að heiman. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður eins og andlát umráðamanna og mjög erfiðar heimilisaðstæður. Þessar stúlkur sem um ræðir eru á unglingsaldri og sem dæmi um aðstæður má nefna fjórtán ára stúlku sem varð ófrísk eftir frænda sinn. Pabbi hennar varð brjálaður og hún þurfti að fara að heiman. Hún fékk að vera hjá móðursystur sinni meðan hún gekk með barnið og hélt áfram að koma í skólann. „Hún eignaðist barnið rétt fyrir próf, núna í byrjun júní. Hún náði öllum prófunum og ætlar að halda áfram námi,“ útskýrir Gullý. Stúlkan fær að vera með barnið sitt á heimavistinni og eru þau Hinrik og Gullý að vinna í fyrirkomulaginu til að allt geti gengið snurðulaust fyrir sig. Á heimavistinni verða góð hjón sem má segja að verði eins konar „foreldrar“  stúlknanna og munu þau halda utan um vistina og sjá til þess að vel fari um alla.

Þurr jarðvegur en mikið ræktanlegt land

Ræktanlegt land í Búrkína Fasó er talið um 43% en til samanburðar er það 18.7% hér á Íslandi samkvæmt The World Fact Book. Jarðvegurinn er býsna þurr en þó má nýta hann til að rækta eitt og annað. Á um 80% hins ræktanlega lands í Búrkína Fasó er ræktaður maís, dúrra og hirsi. Helsti vandinn við jarðyrkjuna í landinu eru hinir miklu og langvarandi þurrkar og einnig það hversu strembið getur verið að dæla upp vatni til að vökva.

Á Líflandi er markmiðið að byggja vatnsturn. „Það er búið að bora eftir vatni en það þarf að handpumpa allt saman og bera vatnið töluverðan spöl innan svæðisins,“ útskýrir Gullý. Vatnsturn er því það sem peningurinn fer í. Hann er ekki ódýr en hann er nauðsynlegur til að starfið á Líflandi gangi vel fyrir sig. „Þá er búinn til turn sem við setjum tank ofan á og við pumpum upp í hann. Turninn er tólf metrar í það heila því að fyrir ofan tankinn er þak og þar verða sólarsellur,“ segir HInrik. Sólarsellurnar knýja pumpuna. Á rigningartímum eða þegar það er skýjað er einfaldlega skipt yfir á rafstöð sem sér um að knýja pumpuna þegar orkan kemur ekki sólarleiðina. Ekki þarf að kaupa sólarsellurnar því þær eru til nú þegar. Pumpan sjálf kostar um 200 þúsund krónur og turninn um eina og hálfa milljón. „Svo þurfum við að leggja vatnskerfi neðanjarðar til heimavistarinnar og inn í hænsna- og svínabúið. Það þarf líka krana til að vökva ræktunina,“ segir Hinrik. Landið er þrír hektarar að stærð og sem fyrr segir er nú þegar risið hænsnabú þar sem gert er ráð fyrir tvö þúsund hænum. Svínabú er einnig risið og er það tvöfalt stærra en hænsnabúið en svínaræktin mun fara rólega af stað og er stefnan að byrja með nokkrar gyltur og einn gölt og leyfa því að hafa sinn gang. Búið er að sá bæði maís og baunum en grænmetisrækt er það sem til stendur að fara út í  af fullum krafti. „Við viljum líka kenna þeim að rækta hvítkál, tómata, kúrbít og eggaldin. Við þurfum að gera þetta í samráði við staðkunnuga,“ segir Gullý. Menntunin sem nemendur öðlast miðar að því að þeir fái alhliða þekkingu til að geta bjargað sér. Bifvélavirkjun og járnsmíði er einnig kennd og með þá menntun og landbúnaðinn í farteskinu verða til einstaklingar fullfærir um að stofna bú og gerast bændur.

Hlaupið fyrir vatnsturni

Það geta vonandi sem flestir lagt sitt af mörkum til að við náum því markmiði að koma upp vatnsturni á Líflandi. Hægt er að heita á hlauparana sem hlaupa til styrktar ABC í Reykjavíkurmaraþoni á laugardaginn og upphæðin getur verið frá 1000 krónum og upp. Margt smátt gerir eitt stórt og í þessu tilviki gerir margt smátt heilan vatnsturn sem á heldur betur eftir að koma í góðar þarfir. Hér má fara beint inn á síðuna til að heita á hlauparana en þeir eru um fjörutíu talsins og fer fjölgandi!