Árið 2013 kom 8 ára drengur til okkar í ABC skólann í Búrkína Fasó. Það árið byrjaði hann í 1.bekk. Omar varð 13 ára í maí og er í 7. Bekk. Hann hefur staðið sig vel í skólanum og ekki þurft að endurtaka neinn bekk eins og margir þurfa að gera hér.
Omar á sér þann draum að verða hjúkrunarmaður.
Þrátt fyrir mikinn dugnað á Omar á sína erfiðu sögu. Hann er með alvarlegan sjúkdóm í beinunum. Hann er margsinnis búinn að brotna. Eitt sinn var Hinrik, forstöðumaður skólans, kallaður út fyrir skólalóðina. Þegar hann kom þangað lá Omar á jörðunni og hafði brotnað. Hinrik vildi að við færum með drenginn á sjúkrahús en kennarinn sem var þar sagði „nei,nei, við verðum að bíða eftir pabba hans sem er á leiðinni“. Það var gert og honum boðið að við færum með drenginn á sjúkrahúsið en það vildi pabbinn ekki. „Við borgum allan kostnað við það“, sagði Hinrik. Nei, faðirinn tók drenginn, brotinn í fang sér og bar hann heim. Hann vill bara meðhöndla Omar með „traditional“ lyfjum.
Þegar Omar brotnar og líður mjög illa kemur hann skiljanlega ekki í skólann og segist stundum ætla að hætta. Um leið og bráir af honum kemur hann haltrandi í skólann með prik sem hann styðst við. Fyrir rúmu ári síðan brotnaði hann illa þannig að annar fóturinn virðist ekki hafa gróið. Nú er hann búinn að fá hjólastól og á því mun auðveldara að ferðast um.
Við erum mjög þakklát og stolt yfir að hafa þessa hógværu og sterku hetju í skólanum okkar.


