Haraldur Pálsson og Jóhanna Sólrún Norðfjörð, eigendur Áveitunnar á Akureyri hafa á undanförnum árum, ásamt góðum hópi starfsmanna og vina, farið reglulega til Búrkína Fasó og hjálpað til við hin ýmsu verk – en þó aðallega mjög stórt vatnsverkefni fyrir skólann og ræktunarlandið þeirra. Fékk fyrirtækið nýlega styrk frá Utanríkisráðuneytinu fyrir nýjasta verkefnið, sem gerði það að verkum að hægt var að framkvæma meira en ella og var verkið unnið með heimamönnum. Í janúar fór síðasti hópurinn á þeirra vegum til Búrkína Fasó.
Þegar ljóst var að 120 metra djúp borholan skilaði 6 til 8 þúsund lítrum af vatni á klukkustund var ráðist í að girða landið með háum vegg til að vernda svæðið svo að framkvæmdir gætu hafist. Byggð voru hús og snyrtingar fyrir umsjónaraðila og Afríkuhús sem nýtt eru á uppskerutímum. Farið var í að setja upp vatnsturna, leggja vatns- og raflagnir og settar upp sólarsellur. En í þessu stóra verkefni hafa verið lagðir um það bil 700 metrar af stofnlögnum um ræktunarlandið, sem er um 5 hektarar að stærð. Tveir vatnsturnar 12 m. háir voru reistir með tuttugu þúsund lítra tönkum. Einnig voru tvö vatnsker steypt, en þau eru fimmtíu þúsund lítrar hvort. Hópurinn hefur unnið hörðum höndum að þessu verkefni ásamt heimamönnum, sem fengu góða kennslu frá Íslendingunum og ættu nú að geta sinnt því ef og þegar eitthvað kemur uppá. Í svona verkefni þar sem um er að ræða þróunarsamvinnu skilar þekkingin sér á báða bóga.
Vegna þessa frábæra framtaks Áveitunnar er nú hægt að rækta á landinu allt árið um kring, en áður var það aðeins hægt á rigningartímum, sem er u.þ.b. þrír mánuðir á ári. Er þetta gríðarlega mikil búbót fyrir skólann í Búrkína Fasó þar sem mikil fátækt og hungur er í landinu og sendum við eigendum, starfsmönnum og vinum Áveitunnar okkar bestu þakkir fyrir.