fbpx

ABC barnahjálp 35 ára

Í ár fagnar ABC barnahjálp 35 ára afmæli samtakanna sem hafa allt frá upphafi einbeitt sér að aðstoð við að mennta börn í fátækum löndum svo þau eigi möguleika á betra lífi. Hjalti Skaale Glúmsson tók við framkvæmdastjórn ABC barnahjálpar fyrir tæpum tveimur árum af Laufeyju Birgisdóttur. Hjalti segir að þegar hann fékk tækifæri til að starfa fyrir ABC barnahjálp hafi hann strax ákveðið að slá til, enda alltaf verið hrifinn af því mikla starfi sem samtökin hafa staðið fyrir. „Við styðjum fátæk börn til náms, allt frá þriggja ára og upp í háskólanám, í sjö löndum í Afríku og Asíu.“

Hjalti segir að í upphafi árið 1988 hafi samtökin verið að styðja frumbyggja í Mexíkó og síðan á Fílabeinsströndinni og áherslan verið á að kenna bæði fullorðnum og börnum lestur. „Árið 1990 byrjar núverandi skipulag, að styðja börn til náms, og þá byrjuðum við á Filippseyjum og vorum í samstarfi við sænsk samtök. Þá vorum við að hjálpa börnum sem búa á ruslahaugum í höfuðborginni Manila. Samtökin hafa frá upphafi einbeitt sér að því að hjálpa fátækustu börnunum að fara í skóla og fá von um betra líf. Menntunin er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar,“ segir Hjalti.

„Við getum öll haft áhrif á stöðuna í heiminum og í gegnum ABC barnahjálp er hægt að taka að sér barn og styðja það til náms, en kostnaðurinn við það er 3.800 krónur á mánuði sem sambærilegt við að kaupa eina pítsu! Þessir peningar duga fyrir skólagöngu, skólabúningi, máltíð og skólagögnum fyrir eitt barn. Það er ótrúlegt að sjá hvað þetta tækifæri gjörbreytir lífi barnanna, sem sum eru að upplifa öryggi og daglegar máltíðir í fyrsta skipti.“ ABC barnahjálp rekur einnig heimavistarskóla þar sem börnin fá húsnæði og allar máltíðir dagsins, sem kostar 5.800 krónur fyrir hvert barn á mánuði. „Stærsta heimavistin er við skólann okkar í Bangladess. Núna erum við að byggja heimavist við skóla í norður Úganda með styrk frá utanríkisráðuneyti.“

Annað verkefni sem Hjalti nefnir og utanríkisráðuneytið styrkir er klæðskeranám fyrir stúlkur í Pakistan sem hefst í haust. „Aðstoð einstaklinga sem taka að sér að styrkja barn til náms er ómetanleg og skiptir sköpum fyrir lífsgæði barnanna, sem oft eiga ekkert nema fötin sem þau eru í. Með góðri menntun breytist staða barnanna algjörlega og þau eiga von um betri framtíð. Það er fátt sem yljar manni meira um hjartaræturnar en að taka þátt í að bæta lífsgæði barna.“

Til að styrkja barn til náms er hægt að smella hér og velja þar barn til að styrkja.

Í tilefni afmæilisins gáfum við út blað sem dreift var inn á 72.000 heimili á landinu. Við viljum að sjálfsögðu deila því með ykkur öllum og getur þú því skoðað blaðið með því að smella á myndina hér að neðan.

Þú getur styrkt barn með mánaðarlegum greiðslum.