Jólahátíð á Heimili Friðar - ABC barnahjálp

Jólahátíð á Heimili Friðar

Á hverju ári fagna nemendur og starfsmenn jólunum með jólaskemmtun. Heimavistin fyllist þá venjulega af  gleði og jólaljósum. En jólin voru með öðru sniði að þessu sinni. Aðeins ein stjarna var fest á þak hússins í stað allra jólaskreytinganna sem börnin búa til á hverju ári. Dansandi, söngelsku börnin voru víðs fjarri í þetta sinn. Raddir kennaranna voru þær einu sem bergmáluðu um húsið.

Vegna þess hversu erfitt árið hafði verið nemendum og fjölskyldum þeirra, vildu starfsmenn skólans færa börnunum gleði og jólaanda heim til þeirra. Tókst þeim, með mikilli vinnu og samstöðu, að fagna jólunum á níu mismunandi stöðum með börnunum úr skólanum og færa jólagleði og von inn á hvert heimili.

Skólastjórinn og starfsfólk skólans heimsóttu nemendur sem búa í Chawliya Bottoli, Mukundopur, Boro Bailya, Doshaniya, Farmhat, Sindula, Moddhopara, Birampur og Dhamurhat. Farið var eftir öllum sóttvarnarreglum ríkisstjórnarinnar.

Á jólaskemmtuninni sungu börnin jólalög og dönsuðu. Einnig var sérstaklega beðið fyrir heilbrigði fjölskyldanna og lækningu heimsins á tímum heimsfaraldursins. Í lok skemmtunarinnar fengu börnin svo gjafir. Í venjulegu árferði fá börnin leikföng að gjöf, en í ár var ákveðið að gefa mat og hreinlætisvörur sem koma að góðum notum fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Börnin fengu 1kg af hrísgrjónum, 3 dósir af niðursoðinni mjólk, 1kg sykur, ½kg semai mjöl, húðkrem, Petroleum jelly, sjampó, tannbursta, tannkrem og kókosolíu.

Fjölskyldan fékk 15kg hrísgrjón, 1kg baunir, 2kg salt, 1l soyabaunaolíu, 1pk þvottaduft, eina þvottasápu og eina baðsápu. Nemendur og foreldrar upplifðu jólagleði og von um betri framtíð. Dagskráin vakti því mikla lukku. ASC fagna því að gleði jólanna og boðskapurinn um kærleikann barst til þeirra sem þarfnast hans mest á þessum tímum. En án ykkar, kæru stuðningsaðilar, hefði aldrei verið hægt að koma þessu í verk.




Skildu eftir svar