Undanfarna daga höfum við á skrifstofunni unnið að því að pakka inn jólakortum frá börnunum okkar í Afríku og Asíu og jólakveðju til stuðningsaðila. En jólakortin eru mikilvægur hluti af samskiptum okkar við stuðningsaðilana því það er oft á tíðum eina snertanlega tengingin við stuðningsbarnið og leggjum við mikið upp úr því ár hvert við stjórnendnur á vettvangi að fá jólakort frá öllum börnunum.
Í ár gekk það ótrúlega vel að fá jólakortin miðað við aðstæður í heiminum vegna Covid-19. Skólar eru lokaðir á sumum svæðum og því ekki hægt að nálgast öll börnin. En kennarar lögðu ýmislegt á sig til þess, fóru heim til barna eða fengu foreldra til að skila kortunum í skólann, en á þeim stöðum sem skólarnir eru opnir útbjuggu nemendur kortin í skólanum. Við erum afskaplega stolt af starfsfólki skólanna að hafa náð að senda okkur jólakort frá flestum börnunum.

Hann Moses, nemandi okkar frá Kenýa sést hér á mynd vera að útbúa jólakortið til stuðningsaðila síns og má svo sjá Sigurlín á skrifstofunni okkar með kortið að pakka því í umslag og senda það af stað.

Við erum þakklát og stolt af samstarfsfólk okkar á vettvangi sem sinna börnunum af alúð og kærleika og finna alltaf leiðir og lausnir til að nálgast börnin og hjálpa þeim áfram með nám sitt.