Dagana 14. og 15. maí sl. var haldin námstefna með vinnusmiðjum fyrir kennara og starfsfólk ABC skólanna í Úganda. Fór hún fram í húsnæði ABC skólans í Kitetika sem er í um 16 kílómetra fjarlægð frá Kampala, höfuðborg Úganda.
Námstefnan var vel sótt og komu átta kennarar frá Kasangati skólanum og tuttugu starfsmenn frá Kitetika skólanum.
Meginmarkmið námstefnunnar voru m.a. að virkja og efla sköpunargáfu kennaranna með það í huga að nýta náttúruna og það sem til fellur í umhverfinu. Áhersla var lögð á að glæða aðferðir til spuna og kennarar hvattir til að leika af fingrum fram þegar kemur að skapandi starfi, t.d. við handverk. Hópvinna var í forgrunni þessa tvo daga og vinnusmiðjur voru vettvangurinn til að láta ljós sitt skína í samstarfinu og er ætlunin að efla samstarf skólanna tveggja í framtíðinni.
Síðast en ekki síst var rýnt í hvernig bæta mætti kennsluhætti, skipulag og kennsluáætlun og hvernig tryggja mætti að námsskrám sé fylgt vandlega.
Brúður, boltar og pottar
Mánudagurinn 14. maí fór vel af stað. Kennararnir voru verulega jákvæðir og spenntir fyrir því að læra nýja hluti. Þeir höfðu meðferðis efnivið úr umhverfinu og má þar nefna viðartrefjar úr bananatrjám, leir, dagblöð, hálm, tapíókamjöl og hveiti. Allt efniviður sem mögulegt er að búa eitthvað til úr.
Viðstöddum var skipt niður í þrjá hópa og var heldur betur gaman að sjá hvað hver hópur bjó til! Fyrsti hópurinn bjó til gólfmottur, bolta, kaðla og brúður úr viðartrefjunum. Þau bjuggu til 12 mottur, 45 bolta, 16 kaðla og 50 brúður. Þau voru sammála um að áhugi þeirra handverki hefði vaxið mjög eftir vinnusmiðjuna.
Annar hópurinn einbeitti sér að leirmunagerð og afraksturinn var töluverður eftir daginn. Þau bjuggu til diska, potta, form og lítil hús. Hópurinn vann saman af mikilli ákefð og var samvinnan góð.
Þriðji hópurinn fékkst við bókagerð úr notuðum dagblöðum og pappír. Til urðu sögubækur, myndabækur og teikniblokkir. Samvinnan skilaði sér vel og hver og einn gat deilt þekkingu sinni með hinum. Fjölbreytnin ber vott um það.
Þriðjudagurinn hófst á uppbyggilegri morgunstund þar sem lesin voru upp hvetjandi orð þau hugleidd. Því næst var farið vandlega yfir námsskrárnar og allt það sem til stendur að kenna næstu önnina. Þannig verðum verða skólarnir samstíga í að gera kennsluna sem besta á komandi skólaári.
Að því loknu var viðstöddum skipt niður í hópa á nýjan leik og unnið að brúðugerð úr efnisbútum. Hver hópur bjó til fimmtán myndarlegar og litríkar brúður.
Næsta námstefna undirbúin
Starfsfólkið sem sótti námstefnuna stóð frammi fyrir nokkrum áskorunum sem farið var yfir í lokin. Til dæmis skorti fjármagn til að kaupa hluti á borð við saumnálar, matarlit, garn, skæri og matarolíu. Ofan á það bættist að samgöngur eru stopular á milli skólanna tveggja í Kasangati og Kitetika og ekki hægt að reiða sig á utanaðkomandi aðstoð.
Með þau atriði í huga var farið yfir hvernig undirbúa mætti næstu námstefnu og vinnusmiðjur til að árangurinn verði sem bestur. Reynslunni ríkari og fullir eldmóðs héldu kennarar og starfsfólk aftur til sinna starfa.