Kveðja frá ABC skólanum í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Kveðja frá ABC skólanum í Búrkína Fasó

Kæri stuðningsaðili.

Vegna Covid-19 faraldursins sem hefur herjað á Búrkína Fasó eins og önnur lönd, þá langar okkur að senda smá kveðju.

Skólastarfið hófst í byrjun október eins og venjulega.  Börnin fengu bækur og öll námsgögn. Strax var hafist handa við að sauma skólabúninga á allan skarann eða rúmlega 700 nemendur. Nemendur saumadeildar og þeir sem hafa útskrifast þar sjá um að sauma búningana. Skólastarfið var með eðlilegum hætti þar til 17. mars.

Þá gerði Covid-19 faraldurinn vart við sig í Búrkína.  Faraldurinn virðist hafa komist til landsins með nokkrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem voru á ráðstefnu í París.  Tveir þeirra  létust skömmu eftir heimkomuna.  Þetta var mikið áfall fyrir stjórn landsins sem lokaði öllum skólum og landamærum.  Fólki var líka bannað að ferðast milli þorpa og borga.  Skólahald var því með mjög breyttu sniði, þar sem  kennt var fram á sumar, eftir að skólar voru opnaðir á ný.

Ekki er vitað um að nokkur sem tengdur er ABC skólanum hafi veikst af Covid-19. 

Margir innfæddir áttu mjög erfitt þennan tíma þar sem markaðir voru illa starfandi og erfitt að selja það litla sem fólk hafði til að selja.

Starfsfólk skólans var í sambandi við heimili nemenda og útbjó matargjafir sem fólk gat sótt í skólann eða þá að kennarar fóru með matinn heim til fólks.  Fólk fékk að jafnaði 40 kíló af maís. Stórar fjölskyldur fengu meira.

Stúlknaheimilið var starfandi allan tímann.  Þar voru skólastúlkurnar okkar í öryggi þar sem þær fengu góðan mat og alla aðhlynningu.

Við erum mjög þakklát fyrir hjálp ykkar sem meðal annars gerði okkur kleift að komast yfir þetta erfiða og óvenjulega tímabil. Bæði nemendur og fjölskyldur þeirra ásamt starfsfólki skólans tala oft um ykkur sem hjálpið börnunum til að komast í ABC skólann. Þau biðja Guð að blessa ykkur, heilsuna ykkar, vinnuna og fjárhaginn. Það væri yndislegt ef þið gætuð skynjað virðinguna sem þetta fólk ber fyrir ykkur.

                                              Með hlýhug og þakklæti,

                                                            Gullý og Hinrik




Skildu eftir svar