Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar - ABC barnahjálp

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar

Áður en Covid-19 faraldurinn skellur á heimsbyggðina eru um 250 milljónir barna á grunnskólaaldri utan skólakerfisins og um 800 milljónir fullorðinna einstaklinga hafa aldrei lært að lesa. Áhrif heimsfaraldursins hefur einungis aukið þann fjölda.

Þessi sláandi staðreynd kemur meðal annars fram í fræðsluþættinum Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin, sem sýndur var á RÚV þann 11. Febrúar 2021. Hér er um að ræða samstarfsverkefnið Þróunarsamvinna ber ávöxt sem ABC barnahjálp, ásamt tíu öðrum félagasamtökum hér á landi sem starfa við þróunarsamvinnu, standa að með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu.

Í vettvangsferðum mínum hef ég hitt mikinn fjölda foreldra sem hvorki kunna að lesa né skrifa. Þetta fólk reiðir sig á aðstoð frá börnum sínum fyrir hversdagslegar athafnir eins og að lesa á skilti, fara í banka og sækja sér læknisaðstoð. Ólæs einstaklingur á erfitt með að meta eigið virði og þar af leiðandi virði vinnuframlags síns. Hugsaðu þér að rata ekki um eigin borg því þú getur ekki lesið á götuskilti. Eða þurfa að fá lánaða peninga fyrir læknisþjónustu og vera meginþorra ævinnar að endurgreiða lánþeganum því þú veist ekki hvað þú skuldar eða hverju þú ert að skila með vinnuframlagi þínu. Þetta er því miður algeng staða.

Hvernig skal forðast smit og leita sér hjálpar í heimsfaraldri? Hér á Íslandi er fundum sjónvarpað og útvarpað reglulega og fræðslu í prentuðu formi dreift víða um samfélagið. Erfitt er að setja sig í spor fólks á tímum Covid-19 þegar algert ólæsi kemur í veg fyrir að slíkar leiðbeiningar og fræðsla um smitvarnir skili sér.

Okkur er því löngu ljóst að menntun skiptir ekki einungis börnin sjálf sem sitja á skólabekk máli, heldur einnig fjölskyldur þeirra og samfélag í heildinni. Án aðstoðar í formi menntunar eru þau því ófær um að brjótast út úr vítahring fátæktar.

Þó flestar þjóðir heims telji að með samstilltu átaki sé hægt að ná árangri í að bæta lífsskilyrði jarðarbúa, eru menn ekki í öllum tilvikum sammála um hvaða leiðir er best að fara. Til að mynda hvaða tegund aðstoðar sé vænlegust til að skila árangri. Í mínum huga er menntun sterkasta vopnið gegn fátækt, fáfræði og kúgun. Ekki einungis á bókina, heldur er mikilvægt að fræða barnið frá unga aldri um sjálfsvirði og mikilvægi einstaklingsins. Að hvert barn búi að hæfileikum, eiginleikum og gjöfum. Menntaður einstaklingur hefur möguleika á að breyta því lífi sem sá hinn sami er dæmdur til að öðrum kosti.

Þar höfum við fjórða markmið Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Að menntun sé grundvallar mannréttindi og að tryggja eigi öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifærum til náms alla ævi.

Sé miðað við aðrar þjóðir, stendur íslenska þjóðin mjög framarlega í stuðningi almennings til frjálsra félagasamtaka eins og ABC. Við skiptum öll máli í baráttunni fyrir betri heim og stuðningur þinn skiptir miklu máli. Ég hvet því alla sem það geta, til að taka þátt í að bæta heiminn í þessu skrefi og styðja barn til náms.

Höfundur er Laufey Birgisdóttir framkvæmdastjóri ABC Barnahjálpar.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Greinin birtist fyrst á vef Fréttablaðsins.
Skildu eftir svar