ABC rekur skóla í Sheikhupura héraði í Pakistan í samstarfi við frjálsu félagasamtökin Rasta foundation of Pakistan. Mikið hefur verið lagt upp úr að læknisheimsóknir í skólann séu reglulegar og hafa þær verið einu sinni í mánuði. Á dögunum kom læknir í heimsókn og var að ýmsu að huga. Ófáir nemendur höfðu krækt sér í leiðindapest sem einkenndist af hita og hósta. Þeir fengu meðhöndlun við hæfi sem og þeir sem sýndu merki um ofnæmi og aðra almenna kvilla.
Vel var hlúð að ungri stúlku sem varð fyrir því óláni að detta niður af þaki og slasa sig í andliti og hefur þjáðst af blóðleysi vegna þess. Læknirinn, Nabeel, skoðaði hana hátt og lágt og gaf henni þau lyf sem þurfti til að flýta fyrir batanum. Þessar læknisheimsóknir eru afar mikilvægar og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er vel vandað til verka og bíða börnin prúð og stillt eftir að röðin komi að þeim.