
Tækifæri er mikil gjöf og nemendur ABC skólanna í Afríku og Asíu sýna þakklæti sitt í verki. Margir nemendur hafa þegar lagt grunn að góðri framtíð þökk sé tækifærinu og aðrir eru í miðju verki og láta sig dreyma um góða hluti í vændum.
Bjartsýnin ríkir
Tracy er 10 ára gömul stúlka og hún stundar nám í skóla á vegum ABC barnahjálpar í Úganda. Hún er bráðgáfuð og hreinlega elskar að ganga í skóla. Tracy býr með móður sinni og þremur systkinum í tveggja herbergja húsi. Þar er ekkert rafmagn og notast þarf við kertaljós þegar kvöldar til að lýsa upp heimilið. Vatn þarf að sækja í brunn í nokkur hundruð metra fjarlægð og það gerir Tracy á hverjum degi ásamt því að hjálpa til við þvott og eldamennsku eftir að skóladegi lýkur.
Móðir hennar þénar örlítinn pening með því að þvo þvott nágranna í þorpinu og stjúpfaðir Tracy fær um 115 krónur á dag fyrir vinnu sína sem almennur verkamaður. Saman þéna þau engan veginn nógu mikinn pening til að kosta skólagöngu Tracy. Ekki er vitað hvar líffræðilegur faðir hennar er niðurkominn.
Bjartsýnin ríkir þó hjá fjölskyldunni og móðir Tracy er styrktaraðila dóttur sinnar afar þakklát. „Styrktarkerfi ABC færir fjölskyldum von um betri framtíð í gegnum menntun barnanna“, segir hún og vill skila kæru þakklæti til stuðningsaðila Tracy.
Ekkert utan seilingar með góðri menntun
Moses er átta ára gamall strákur sem býr í Úganda. Hann á sex systkini og hann býr í húsi með þremur litlum herbergjum og engu eldhúsi. Öll eldamennska þarf að fara fram í stofunni. Móðir hans heitir Josephine og er hún eina fyrirvinnan en faðirinn er ekki til taks og veitir engan stuðning. Josephine neyddist til að taka lán til að hafa efni á grunnþörfum fjölskyldunnar en þegar hún gat ekki staðið við greiðslur var hún vistuð í fangageymslur. Elsti sonurinn, Kevin, sá enga aðra leið en að hætta í skóla og fara að vinna til að sjá fjölskyldunni farborða.
Eftir nokkurra mánaða fangelsisvist var Josephine sleppt úr haldi en heilsu hennar hefur hrakað all verulega. Hún vinnur nú erfiðisvinnu og þénar um 115 krónur á dag og dugar það fyrir einni máltíð fyrir alla fjölskylduna á dag. Börnin deila tveimur rúmum og nota gömul teppi sem yfirbreiðslu. Til að nálgast vatn ferðast þau um 500 metra í þorp þar sem brunnur er.
Þrátt fyrir alla erfiðleikana er fjölskyldan þakklát fyrir sitt og horfir björtum augum á framtíðina. Moses er í skóla á vegum ABC barnahjálpar og tvö systkini hans einnig. Á einni myndinni má sjá stolt börnin í nýju skólabúningunum sínum og þau eru uppfull af væntingum fyrir framtíðina. Josephine vildi koma á framfæri kærri kveðju til styrktaraðila barna sinna og þakka þeim kærlega fyrir að veita börnum sínum tækifæri til að mennta sig. „Með góðri menntun er ekkert utan seilingar“, segir hún og það er hverju orði sannara.