Nýjir nemendur í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Nýjir nemendur í Búrkína Fasó

Nýjir nemendur í Búrkína Fasó

Venjan er sú að dagurinn er tekinn snemma í Búrkína Fasó og þessa dagana er mikið um að vera í ABC skólanum þar. Þann 3. október hófst skóli að nýju eftir frí og 70 nemendur eru að hefja skólaferil sinn í 1. bekk. Þá fer ferli í gang þar sem börnin eru mynduð og sett inn í stuðningskerfið í þeirri von að þau fái stuðningsaðila. Fátæktin er gríðarleg á þessu svæði í borginni Bobo Dioulasso. Þar býr rúmlega hálf milljón manns og allir nemendur ABC skólans koma frá fátækrahverfinu Quenzenville. Neyðin er meiri en pláss leyfir en þökk sé mikilli uppbyggingu á skólasvæðinu hefur verið hægt að fjölga nemendum sem eru í dag rúmlega 500 talsins.

Það er erfitt að ímynda sér fátæktina á svæðinu. Einn sjálfboðaliði á vegum ABC er svæðinu og hún lýsir veruleika nemenda með þessum hætti. “Öll börnin eiga það sameiginlegt að búa við mikla fátækt og mikinn skort. Fjölskyldurnar búa í litlum kofum sem eru byggðir úr leir og stundum sementsblöndu og þakið er járnplata. Þegar rignir hrynja lélegustu kofarnir. Þar er ekkert rafmagn og klósettið er hola fyrir utan hús eða þau “bregða sér út fyrir”. Vatnið er keypt úr næstu borholu eða tekið úr óhreinni á og borið heim á höfðinu. Maturinn er eldaður úti á hlóðum. Maísstönglar og jarðhnetur rækta þau á regntímanum fyrir utan kofana eða á smá akri og dugar maturinn í nokkra mánuði. Þegar hann er búinn birtist fátæktin af miklum þunga og fjölskyldurnar oft stórar. Ef foreldrarnir deyja reyna ættingjar að taka börnin að sér en mörg barnanna í ABC skólanum eru foreldralaus”.

Neyðin er vissulega mikil en það eru bjartir tímar framundan hjá ABC skólanum í Búrkína Fasó þökk sé frábæru starfi starfsmanna, sjálfboðaliða og, síðast en ekki síst, okkar frábæru nemenda.