"Plastic FREE July" - ABC barnahjálp

“Plastic FREE July”

„Plastic FREE July“ er mikilvægur mánuður fyrir umhverfið okkar. Samstarfsaðilar okkar í Asíu hafa stigið skref í að minnka plastnotkun með markvissum hætti.

Á Filippseyjum ber ríkisstofnunum, fyrirtækjum, almennum stofnunum og skólum nú skylda að taka virkan þátt í að afla og halda utan um upplýsingar og fræðslu til að framfylgja lögum ríkistjórnar um takmörkun plastnotkunar í landinu. Þá er lögð áhersla á að draga úr notkun þess, endurnýta og endurvinna eftir mesta megni. Gripið er til þessa aðgerða til að bregðast við aukinni plastmengun í landinu, en lögin sem sett voru nefnast „Ecological Solid Waste Management Act“ eða RA 9003.

CMP (Children´s mission Philippines) tók þessari áskorun mjög alvarlega og innleiddi hana í námskránna hjá sér og er börnum nú kenndar aðferðir til að „draga úr notkun, endurnýta og endurvinna“  plast í öllum sínum hversdagsathöfnum.  Með því að draga úr notkun er þeim til dæmis kennt að notast við bréfpoka eða margnota umbúðir í stað plastpoka og að finna leiðir til að endurnýta plasthluti sem þjóna ekki lengur upprunalega tilgangi sínum. Börnin hafa þannig búið til allskyns skreytingar fyrir sérstök tilefni og haldin var keppni um besta búninginn sem gerður var eingöngu úr endurunnu og endurnýttu efni. Þannig hafa þau lært að draga úr rusli í kennslustofunni, heima hjá sér og úti í samfélaginu og hafa þannig lært að hver og einn skiptir sköpum til að búa okkur heilbrigðara umhverfi til að lifa og starfa í.   

Skólarnir á Indlandi hafa einnig fléttað skaðsemi plasts fyrir umhverfið í námskrá sína og hafa nemendur og fjölskyldur þeirra lagt sig fram við að minnka plastnotkun í sínu daglega lífi. Á síðasta ári heimsóttu nemendur fyrirtæki og verslanir til að vekja athygli á nauðsyn þess að minnka plastnotkun.

Í Bangladess hefur ríkisstjórnin einnig gripið til ýmissa ráða og sem dæmi hefur plastpokum að mestu leyti verið skipt út fyrir fjölnota poka.

Pakistan hefur að sama skapi tekið þá afstöðu að banna stórum verslunum alfarið að vera með plastpoka í boði fyrir viðskiptavini sína sem verða að koma með sinn eigin (helst fjölnota) poka undir vörur sínar.

ABC og plastlaus júlí

ABC barnahjálp er með til sölu hinn stórsniðuga tékkneska netapoka á aðeins 1900 krónur. Þeir fást á skrifstofu okkar í Víkurhvarfi 2 og á nytjamarkaði okkar í Víkurhvarfi 2 í Kópavogi og rennur ágóði af sölu pokanna beint til starfs okkar sem fram fer í sjö löndum.

Saga netapokans er nokkuð skemmtileg eins og lesa má um á vefsíðu framleiðandans en saga pokans er ekki alveg ný. Hún nær aftur til ársins 1926 en þá fór athafnamaðurinn Vavřín Krčil að leita leiða til að búa til sterkan poka sem bæri mikið og tæki lítið sem ekkert pláss. Framleiðslunni var hætt á tímabili en nú er hann kominn aftur. Á undanförnum árum hafa pokarnir orðið flottari og litskrúðugri, auk þess sem umhverfisvitund fólks hefur gert þá að vinsælli vöru. Netapokinn er mjúkur, flottur, ódýr og tekur lítið pláss. Hann má geyma í handtöskunni eða í vasanum og nota hann aftur og aftur og aftur. Pokinn ber allt að 28 kíló og hann má þvo við 30°C. Netapokinn er úr bómull og 5% spandex, og jú, hann er handunninn!

Við hvetjum ykkur til að taka þátt í plastlausum júlí, hugsa um náttúruna og um leið má styrkja afar gott málefni með kaupum á náttúruvæna pokanum!
Skildu eftir svar