Saga af vettvangi frá Úganda - ABC barnahjálp

Saga af vettvangi frá Úganda

Fyrsta sjónin í Kasangati Í ABC skólanum í Kasangati tekur brosmildur kvenkyns vörður að nafni Agnes á móti þeim sem koma inn fyrir dyrnar, hvort sem um er að ræða nemendur eða gesti. Hún tekur starfi sínu alvarlega og þegar ókunnugu andliti bregður fyrir er Agnes fljót að spyrja viðkomandi hvert erindið sé. Líf einstæðra mæðra í Úganda er erfitt. Margar þeirra koma úr sárri fátækt og aðstæður koma í veg fyrir að þær geti unnið sig úr henni. Mjög oft kemur upp sú staða að eiginmenn ákveði einn daginn að láta sig hverfa og hefja nýtt líf á öðrum stað. Félagslegt umhverfi í landinu er ekki eins og flestir þekkja því engin lagaleg kvöð er á mönnunum að styðja fjárhagslega við barnsmóður sína eða börn. Fólk í fátækrahverfum er algerlega á eigin spýtum og eftirfylgni af hálfu yfirvalda við fjölskyldur og börn í slæmri stöðu er engin. Hver og einn þarf að sjá um sig sjálfur. Sjálfsbjargarviðleitni hvert sem litið er ABC skólinn í Kasangati er staðsettur í miðju íbúðarhverfi þar sem fjöldi fjölskyldna býr við miður góðar aðstæður þó ekki sé um að ræða fátækrahverfi í eiginlegum skilningi. Á leiðinni sjást fjölmargir markaðir sem selja mat og ávexti á vegi sem er eingöngu rauðleit mold. Allir sem á vegi manns verða eru að reyna sitt besta að þéna smá pening. Þeir sem ekki standa vaktina á mörkuðunum sjást berandi ávexti, trjágreinar eða hey á öxlum sínum eða með tvöfalt meira magn af svipuðu sem búið er að festa við reiðhjól. Svo eru fjölmörg bifhjól sem þjóta fram hjá en nokkrir á þeim stoppa og spyrja hvort þörf sé á fari. Þetta eru sem sagt leigubílarnir og alls ekki óalgengt að sjá þrjá einstaklinga um borð í þeim. Úr örbirgð í ábyrgðarstöðu Agnes er harðduglegur starfsmaður og stendur vaktina í skólanum frá klukkan 7 á morgnana til 5 á daginn sex daga vikunnar. Hún er 35 ára gömul og er einstæð þriggja barna móðir. Eitt af börnum hennar er nemandi í framhaldsskóla í ABC skólanum í Kitetikka. Saga hennar mjög svipuð margra kvenna að sögn Trudy Odida, annars forstöðumanns ABC Children‘s Aid í Úganda. Agnes átti eiginmann sem dag einn yfirgaf hana og tók saman við aðra konu. Hann skildi Agnesi eftir með börnin þeirra þrjú og hefur ekkert samband við þau né styrkir fjárhagslega. Þetta var fyrir 10 árum síðan og Agnes hefur þurft að framfleyta sjálfri sér og börnunum með einhverjum hætti. Í langan tíma vann hún í verksmiðju sem framleiddi drykkjarföng. Þar vann hún frá sólarupprás til sólseturs alla daga vikunnar og fékk að launum 100.000 úganska shillinga á mánuði. Það eru í kringum 2.800 íslenskar krónur og dugar mjög skammt þó svo flest allt í landinu sé ódýrt á okkar mælikvarða. En Agnes gat ekki einu sinni stólað á þessi laun því á tímum kom fyrir að hún fékk ekkert greitt. Þakklæti efst í huga Með mikilli vinnu og erfiði tókst Agnesi að koma einu barninu sínu í ABC skólann því hún vill ekkert heitar en að börnum hennar bíði betri framtíð. Trudy kynntist Agnesi og þótti mikið til hennar koma. Þegar færi gafst bað Trudy hana Agnesi að hefja störf sem vörður í skólanum og þar stendur hún sig með prýði. Hún fær betri laun, einn frídag í viku og getur séð fyrir sjálfri sér og börnunum sínum. Þegar Trudy og Laufey Birgisdóttir, framkvæmdarstjóri ABC barnahjálpar, ræða stuttlega við Agnesi er eitt sem stendur upp úr í þeim samræðum. Agnes er mjög þakklát fyrir sitt og segist vera mjög ánægð í dag.