Hér er nýleg saga af starfi okkar á Filippseyjum þar sem ABC rekur skóla og starfar náið með Children´s Mission:
Í Timbang verkefninu (verkefni á vegum ríkisstjórnar Filippseyja sem felst í að vigta og mæla öll börn yngri en sex ára) hittum við fyrir hinn tveggja og hálfs árs gamla Kaiser Soldamen. Hann var horaður og fölleitur og ekki nema sjö kíló. Vegna ástands hans og fjölskylduaðstæðna komum við honum inn í næringaráætlunina okkar. Fjölskylda Kaisers bjó í húsi ömmu hans. Móðir hans er tvítug og var á þessum tímapunkti fyrirvinna fjölskyldunnar þar sem faðir hans, nítján ára gamall, var upptekinn við persónuleg mál.
Kaiser litli fékk góða meðhöndlun hjá okkur. Hann var ormahreinsaður, honum gefnir meltingargerlar, fjölvítamín auk þess sem hann hitti lækni eftir þörfum. Í einni heimsókninni til hans tókum við eftir töluverðum breytingum og miklum framförum hjá drengnum. Vanalega faldi hann sig þegar við komum en eftir því sem við hittumst oftar sáum við að hann var bæði orðinn glaðari og meiri leikur í honum.
Faðir hans fann hvata til að fá sér vinnu og afla tekna fyrir heimilið. Sú menntun sem hann hafði fyrir auðveldaði honum atvinnuleitina og innan þriggja mánaða var hann kominn með starf sem sölumaður hjá Ever Gotesco (verslunarkeðja á Filippseyjum). Nú getur hann séð fjölskyldu sinni farborða og móðirin getur hlúð að börnunum. Kaiser litli hefur heldur betur braggast og vegur nú heil tólf kíló. Það þýðir að hann hefur þyngst um fimm kíló á aðeins þremur mánuðum!