Samhugur á monsúntímanum - Myndir - ABC barnahjálp

Samhugur á monsúntímanum – Myndir

Síðustu tvær vikur hafa reynst mörgum fjölskyldum erfiðar víða um Filippseyjar vegna mikilla flóða á monsúntímanum. Nemendur við skólana okkar hafa ekki sloppið frekar en aðrir við þessa feiknakrafta náttúrunnar og hafa margir á svæðum í Rodriguez, Bagong, Silangan og Quezon verið fluttir burt í neyðarhjálparstöðvar. Samstarfsaðiliu ABC barnahjálpar í Filippseyjum, Children´s Mission Philippines, hafa haft nóg að gera við að útvega fólki nauðsynjar á borð við skjól, klæði og mat.

Hvað er átt við með monsúntíma?

Áður en lengra er haldið er rétt að útskýra í stuttu máli hvað monsúntími og monsúnvindar eru. Þó svo að við hér á Íslandi teljum okkur nokkuð vel að okkur þegar talið berst að vondu veðri, roki og mikilli rigningu þá er óhætt að fullyrða að monsúnfyrirbærið er annars eðlis en það sem blæs á eyjuna okkar í N-Atlantshafi. Monsúnvindur er staðvindur yfir Indlandshafi og S-Asíu sem blæs úr suðvestri mánuðina apríl til október og úr norðaustri það sem eftir er árs. Monsúntímanum fylgir regntímabil og það stendur á meðan vindurinn blæs úr suðvestri. Á íslensku hefur orðið misserisvindur verið notað um monsún og viðsnúning ríkjandi vindátta frá vetri til sumars en hér höldum við okkur við orðið monsún. Að því er fram kemur í góðri grein Trausta Jónssonar veðurfæðings á síðu Veðurstofu Íslands þá búa um tveir þriðju hlutar mannkyns á monsúnsvæðum og er matvælaframleiðsla heimsins mjög háð þeim úrkomuháttum sem tengjast monsúnvindum. Áhugasamir geta lesið greinina hér.

806 fjölskyldum færður matur

Þann 14. ágúst sl. hóf starfsfólk Children´s Mission að útdeila heitum máltíðum til fólks á því svæði sem verst varð úti í Kasiglahan. Kasiglahan er þekkt fyrir þá miklu flóðahættu sem þar skapast og býr þar fjöldi fátækra fjölskyldna sem ekki hefur val um að búa á traustara landsvæði. Eðli máls samkvæmt eru hús þeirra fátækustu byggð af vanefnum og því fremur ótraust. 806 fjölskyldum, með að meðatali fimm fjölskyldumeðlimi, var séð fyrir mat og fötum. Áður en hafist var handa var samband haft við yfirvöld á svæðinu, bæði til að tryggja öryggi starfsfólks og af almennri kurteisi. Yfirvöld brugðust vel við og veittu starfsfólki aðstoð í þessu viðamikla verkefni. Það er einstakt að sjá hvernig fólkið starfaði náið saman og hversu sýnilegur samhugurinn var í verki með það eitt að markmiði að aðstoða fólk í nauðum.

Barnvænt svæði búið til

Annað svæði sem verulega illa varð úti í rigningunum er Rodriguez Rizal. Þar varð skyndiflóð þegar ár flæddu yfir bakka sína, brýr hrundu og vatnið beinlínis flæddi í gegnum íbúðarhús. Heimili margra sópuðust burt með vatnsflaumnum. Sem betur fer tókst að vara fólk við í tæka tíð og það flutt yfir á íþróttaleikvang sem taldist öruggur. Chiuldren´s Mission útvegaði fólkinu hluti á borð við teppi og eldhúsáhöld. Sérstök áhersla var lögð á að útbúa svæði fyrir börnin þar sem þau geta leikið sér og verið örlítið frá miðjunni þar sem unnið var að því að leysa vandamálin. Fullorðna fólkið sá um það en haft var ofan af fyrir börnunum með ýmsum leikjum, söng og vinnu- og listasmiðjum. Einnig var snyrtidóti og matvælum úthlutað til að hjálpa börnunum að líða sem best en skóladót barnanna var vissulega rennblautt eða horfið með flóðunum. Unnið er að því að útvega ný skólagögn og skólabúninga.