Mikil gleði ríkti hjá börnunum okkar í Kenýa þegar skólarnir hófu aftur störf þann 11. janúar síðastliðinn. Passað var vel upp á sóttvarnir og hreinlæti en að auki voru nemendur hitamældir í byrjun dags.
Í venjulegu árferði hefst skólaárið í Kenýa í janúar og því lýkur í nóvember. Að þessu sinni hefst skólinn hinsvegar á því að nemendur klára seinni önn 2020 og samkvæmt leiðbeiningum kenýskra skólayfirvalda munu þau ljúka síðasta skólaári áður en nýtt hefst. Til að styðja nemendur í að ná þessu markmiði, réðum við til okkar aukakennara sem hittir nemendur eftir skóla í nýja fjölnotahúsinu sem var reist og standsett síðastliðið sumar meðan heimavistin var lokuð af sökum Covid faraldursins.
Allir nemendur heimavistarinnar mættu glaðir og kátir í skólabúninginum sínum með skólatösku og brosið leyndi sér ekki bakvið grímurnar. Þau höfðu saknað vina sinna mikið og þótti gaman hitta aftur starfsmenn skólans, sem sinna bæði ómetanlegu umönnunarhlutverki og aðstoða börnin með heimanámið. Ánægjuleg skólabyrjun í alla staði.