Stærðfræðiverkefni í Kenýa - ABC barnahjálp

Stærðfræðiverkefni í Kenýa

Í upphafi árs fórum við af stað með verkefni í samstarfi við Kristján Gíslason Hringfara og Borskallaverkefnið til að auka áhuga barna í Kenýa á stærðfræði. Hefur það gefið virkilega góða raun og aukið til muna áhuga barnanna á stærðfræði og virkjað keppnisskapið hjá þeim því eftir því sem þeim gengur betur eiga þau meiri möguleika á mjög flottri umbun.

Styrktarkerfið Broskallar, snýst um kennslukerfi í raunvísindum sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa þróað. Kennslukerfið nefnist tutor-web og hefur að geyma kennsluefni, m.a. í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði, ásamt æfingum sem aðstoða nemendur við að tileinka sér námsefnið. Kerfið þróuðu Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ, og Anna Helga Jónsdóttir, dósent við sömu deild, í samstarfi við tölvunarfræðinga. Það hefur undanfarinn áratug verið nýtt í tölfræði- og stærðfræðikennslu bæði í Háskóla Íslands og framhaldsskólum hér á landi og sömuleiðis í skólum í Kenýa í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ (e. Education in a suitcase) sem sett var á laggirnar í samstarfi við þarlenda fræðimenn.

Umbun í formi Broskallamyntar

Nemendur á heimavistinni okkar í Kenýa fá aðgang að spjaldtölvum sem innihalda Tutor-web, en það hefur að geyma umbunarkerfi sem felst í því að nemendur sem standa sig vel í verkefnum vinna sér inn rafmyntina Broskalla  (e. SmileyCoin) sem hægt er að geyma í rafrænu veski og nýta má til að kaupa spjaldtölvuna þegar nægilega mörgum Brosköllum hefur verið safnað. Styrktarfélagið Broskallar heldur utan um þessa afleiðu tutor-web verkefnisins og er Háskóli Íslands meðal bakhjarla þess og á fulltrúa í stjórn styrktarfélagsins. 

Kristján Gíslason hefur staðið að baki kostnaðar við kaup á spjaldtölvum fyrir heimavistina okkar í Kenýa og sáu einstaklingar á vegum Broskalla um að kenna á tölvurnar og hugbúnaðinn.

Þetta verkefni hefur reynst mjög vel og hafa nemendur sýnt mikinn áhuga á að standa sig vel og leysa verkefnin og vinna þau hart að því að klára verkefnin til að geta að lokum eignast tölvuna um leið og þau auka við þekkingu sína.
Skildu eftir svar