Forvarnarfræðsla Magga Stef - ABC barnahjálp

Magnús Stefánsson - maggistef.is

ABC barnahjálp styrkir fjárhagslega Forvarnafræðslu Magga Stef.

Um er að ræða jákvæðar forvarnir fyrir nemendur 5. og 6. bekkinga í grunnskólum landsins og foreldra þeirra. Magnús Stefánsson heldur fyrirlestrana og hefur persónulega rætt við í kringum 180.000 nemendur og foreldra. Aðaláhersla fræðslunnar er að benda á nauðsyn markmiðasetningar hjá ungu fólki og mikilvægi þess að virða óskir foreldra.

ABC hóf að styrkja starfsemina árið 2011 en hún byrjaði, undir heitinu Marita fræðslan, árið 1997. Þá var fræðslan fyrst og fremst fyrir nemendur 9. bekkjar. Magnús fór að halda fyrirlestra árið 2000 og gerði hann heimildarmynd um stöðu íslenskra ungmenna þegar kom að vímugjöfum. Hann gerði svo aðra heimildarmynd árið 2007 sem snéri að jákvæðri forvarnarfræðslu fyrir miðstigið í grunnskóla. „Þessi aðstoð frá ABC er mjög dýrmæt. Þetta er fræðsla sem mér finnst ótrúlega mikilvæg því oftast er einblínt á unglingana. Forvarnir eiga að byrja miklu fyrr. Það er alþjóðlegt að markmiðadrifið líf er líklegra til árangurs. Lykillinn að góðum árangri er að fræða foreldrana einnig því þeir setja reglurnar. Fræðslan er og hefur verið í stöðugum uppgangi og ber að taka alvarlega“, segir Magnús.