Stór dagur - takk fyrir hjálpina! - ABC barnahjálp

Stór dagur – takk fyrir hjálpina!

Þann 2. mars síðastliðinn var mikið um að vera hjá ABC barnahjálp. Við héldum upp á „Dag gamalla hluta“ með pompi og prakt í Nytjamarkaðnum, um leið og við fögnuðum því að nú er öll starfsemi ABC barnahjálpar, skrifstofa og Nytjamarkaður, formlega flutt á Nýbýlaveg 6.

Dagsetningin var sérstaklega valin því við viljum varpa ljósi á mikilvægi endurnýtingar í alþjóðlegu samhengi og einnig hlúa að sögulegu gildi gamalla hluta. Þá skiptir engum togum hvort um er að ræða smáhluti, fatnað eða húsgögn. Einstakur hlutur getur kallað fram ánægjulegar minningar úr barnæsku eintaklings og þannig aukið persónulegt gildi þess hlutar fyrir viðkomandi.

Flutningar af þessari stærðargráðu eru eðli sínu samkvæmt afar flóknir, en með samstilltu átaki og ómetanlegri aðstoð frá góðu fólki tókst þetta vonum framar. Pípulagningamenn, rafvirki, rafeindavirki, málarar, smiður, sjálfboðaliðar og fjölskyldumeðlimir starfsmanna gáfu vinnu sína til ABC og hjónin Ólöf og Jón veittu okkur ómetanlega aðstoð. Fyrir tilstilli þessa yndislega fólks tókst okkur að halda upp á téðan dag og fengum við til þess lánað hljóðkerfi til að hlusta á notalega tónlist sem DJ Silja Glømmi spilaði af vínylplötum og Sælgætisgerðin Freyja bauð upp á dásamlegt súkkulaði með kaffibollanum.

Við þökkum velunnurum okkar og nýjum viðskiptavinum fyrir frábærar viðtökur!

Með kveðju frá starfsmönnum ABC barnahjálpar.




Skildu eftir svar