Stór matsalur væntanlegur í ABC skólann í Búrkína Fasó - ABC barnahjálp

Stór matsalur væntanlegur í ABC skólann í Búrkína Fasó

Mikill fjöldi íslenskra sjálfboðaliða hefur heimsótt ABC skólann í Búrkína Fasó. Í febrúar síðastliðnum hélt 12 manna hópur út og kom með fartölvur, bolta og fleira og aðstoðaði við ýmis verkefni. Mikil uppbygging hefur verið í skólanum á þessu og síðasta ári og t.a.m. er framhaldsskóli á þremur hæðum þegar kominn í notkun. Stórum vatnstanki var komið fyrir og nýrri vatnsdælu, sólarsellum var fjölgað og stækkun á matsal er komin langt á veg.

Nýi matsalurinn er um 375 fermetrar og mun geta rúmað í kringum 700 börn. „Markmiðið með þessari byggingu er að hafa borð og bekki svo börnin geti setið við borð þegar þau fá matinn. Við viljum kenna þeim siði sem þau eru ekki vön, eins og að sitja við borð og borða með skeið og hnífapörum. Við erum að hugsa til framtíðarinnar. Einhver börnin fara kannski til annarra landa í framhaldsnám og þá er betra að kunna mannasiði þeirra landa. Nú fara þau oftast út með diskana sína, sitja undir tré eða annars staðar í skugga og borða með höndunum,“ segir Gullý Jónasdóttir, annar forstöðumanna skólans.

Nemendur í skólanum koma úr fátækustu hverfunum í borginni Bobo en þar búa um 500.000 manns og mörg börnin geta ekki sótt ríkisrekna skóla þar. Á myndinni sést Hinrik Þorsteinsson, eiginmaður Gullýar og hinn forstöðumaður skólans, fylgjast grannt með framkvæmdum. Hinrik og Gullý hófu starf í Búrkína Fasó árið 2007 og uppgangur skólans hefur verið mikill.