Með fréttum af stöðunni í Úganda og Búrkína Fasó viljum við þakka ykkur stuðningsaðilum okkar fyrir stöðugan stuðning ykkar á þessum örlagaríku tímum COVID-19 faraldursins. Við erum uppfull af þakklæti.
Búrkína Fasó
Þann 17. mars gerði Covid-19 faraldurinn vart við sig í Búrkína Fasó. Faraldurinn virðist hafa komist til landsins með nokkrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem voru á ráðstefnu í París. Þetta var mikið áfall fyrir stjórn landsins sem lokaði öllum skólum og landamærum. Fólki var líka bannað að ferðast milli þorpa og borga. Skólahald var því með mjög breyttu sniði, þar sem kennt var fram á sumar, eftir að skólar voru opnaðir á ný.
Ekki er vitað um að nokkur sem tengdur er ABC skólanum hafi veikst af Covid-19 en margir innfæddir áttu mjög erfitt þennan tíma þar sem markaðir voru illa starfandi og erfitt að selja það litla sem fólk hafði til að selja.
Starfsfólk skólans var í sambandi við heimili nemenda og útbjó matargjafir sem fjölskyldur gátu sótt í skólann eða þá að kennarar fóru með matinn heim til þeirra. Hver fjölskylda fékk að jafnaði 40 kíló af maís en stórar fjölskyldur fengu meira.

Stúlknaheimilið okkar var starfandi allan tímann. Þar voru skólastúlkurnar okkar í öryggi þar sem þær fengu góðan mat og alla aðhlynningu.
“Við erum mjög þakklát fyrir hjálp ykkar sem meðal annars gerði okkur kleift að komast yfir þetta erfiða og óvenjulega tímabil. Bæði nemendur og fjölskyldur þeirra ásamt starfsfólki skólans tala oft um ykkur sem hjálpið börnunum til að komast í ABC skólann. Þau biðja Guð að blessa ykkur, heilsuna ykkar, vinnuna og fjárhaginn. Það væri yndislegt ef þið gætuð skynjað virðinguna sem þetta fólk ber fyrir ykkur. Með hlýhug og þakklæti” segja hjónin Gullý og Hinrik en þau reka ABC skólann í Búrkína Fasó.
Úganda
Menntamálaráðuneytið er að útbúa staðlaðar starfsreglur fyrir skóla landsins sem gefur von um að þeir verði opnaðir fljótlega en um leið og opnað var fyrir einka- og almenningssamgöngur í lok maí var hægt að fara í ýmsar bráðnauðsynlegar framkvæmdir sem ekki hefði verið hægt að framkvæma ef nemendur hefðu verið í skólunum. Það sem m.a. hefur verið betrumbætt er:
Allar kojur voru teknar í gegn, logsoðnar að nýju og málaðar. Viðgerðir og viðhald skólahúsgagnanna hefur einnig farið fram, þ.m.t. á borðum og stólum nemenda, kennaraborðum o.s.frv. Tölvuverið hefur verið tekið í gegn, viðgerðir farið fram og ryk þurrkað af öllum tölvum.
Gert hefur verið við þök sem láku á leikskólanum og nokkrum af heimavistarbyggingunum og fótboltavöllurinn var girtur af.
Dregnir voru nýir rafmagnsvírar í flesta skólana. Sumir vírarnir voru orðnir gamlir og ógnuðu orðið öryggi nemenda. Öryggiskerfi skólanna var yfirfarið og nýjar og betri öryggismyndavélar voru settar upp. Byggð voru salerni fyrir kennara og viðgerð fór fram á salernum nemenda.
Birgðastaða var tekin á öllum eigum skólanna, þ.m.t. á bókasafni, tilrauna- og tölvustofum. Nú stendur yfir skráning á öllum þessum hlutum sem mun koma í veg fyrir stuld á eigum skólanna þar sem starfsfólk ber ábyrgð á þeim.
ABC skólarnir í Úganda voru meðal fárra skóla sem gátu boðið upp á vinnu fyrir starfsfólk sitt á þessum tíma, þökk sé áframhaldandi stuðningi ykkar. Kennararnir voru svo þakklátir og gerðu sér grein fyrir því að starfið okkar metur þá að verðleikum. Kennarar og annað starfsfólk skólanna fékk að vinna við þessar og aðrar framkvæmdir sem gaf þeim tekjur.

Margt starfsfólk annarra skóla, þar með taldir yfirkennarar hafa orðið að selja kol, grænmeti og aðrar vörur í vegarköntum til að framfleyta sér þar sem skólastarfsmenn annarra skóla en ABC hafa ekki fengið laun síðan skólum var lokað í mars. Ekki er sjálfgefið að allt starfsfólk þessara skóla skili sér til vinnu þegar skólarnir opna á ný.
“Ofangreind atriði eru hluti af þeim framkvæmdum sem við höfum getað ráðist í vegna stöðugs stuðnings ykkar. Allt þetta mun koma nemendunum til góða þótt þeir séu ekki í skólanum sem stendur. Við munum halda ykkur upplýstum varðandi opnun skólanna og hlökkum til að senda ykkur bréf frá nemendunum um leið og þeir koma í skólann. Hjartans þakkir og megi Guð blessa ykkur.” segir Trudy Odida sem rekur ABC skólana í Úganda.