"Það er reisn yfir honum" - ABC barnahjálp

"Það er reisn yfir honum"

alt

Dossi Hyacinthe Wilfried er nemandi í ABC skólanum í Bobo í Búrkína Fasó. Hann nýtur þeirrar sérstöðu að vera fyrsti nemandinn sem fékk úthlutað plássi í skólanum.

Hinrik Þorsteinsson og Guðný Jónasdóttir, kölluð Gullý, eru forstöðumenn skólans. Þau voru beðin um að vera fulltrúar starfs ABC í landinu og héldu út árið 2007. Fyrirtækið Atorka Group gaf ABC peninga til uppbyggingar skólastarfs þar og notast var við gamalt skólahúsnæði. Hinrik og Gullý nutu mikillar aðstoðar frá innfæddum við að velja rúmlega 100 börn til að hefja nám. „Í okkar augum voru allir bláfátækir og sumir voru allslausir og þeir fengu inngöngu í skólann. Það er það sem ABC stendur fyrir; að hjálpa þeim sem eiga enga von,“ sagði Hinrik í viðtali.

Hinrik og Gullý gistu hjá vinafólki þegar þau voru að koma skólanum í gang. Beint á móti húsinu bjó fjölskylda á stórri lóð í mörgum kofum. Þar var maður með börnin sín og barnabörn. Ein af dætrum hans var einstæð móðir og átti tvær stúlkur og einn dreng að nafni Dossi og var hann sá fyrsti sem varð fyrir valinu í skólann væntanlega. „Hann fékk að fara í skólann og var þar með fyrsta barnið. Sonur okkur, sem þá var rétt um tvítugt, vildi styrkja hann til náms,“ segir Gullý. Þetta voru mjög erfiðar heimilisaðstæður hjá Dossi en í borginni Bobo Dioulasso er mjög stórt fátækrahverfi og ólæsi í landinu er með því mesta í heiminum.

„Dossi hefur spjarað sig mjög vel og þetta er prúður og góður strákur. Það er reisn yfir honum og hann er afar duglegur. Ég vænti mikils af honum í framtíðinni,“ segir Gullý.