Það tókst! - ABC barnahjálp

Það tókst!

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2018 er að baki og hlupu 14.579 hlauparar fyrir hin ýmsu góðgerðarfélög. ABC barnahjálp var eitt af þeim 180 góðgerðarfélögum sem naut góðs af áheitasöfnuninni í kringum maraþonið og hlupu 47 vaskir hlauparar til styrktar starfinu. Við erum þeim hjartanlega þakklát!

Þá er það hinn helmingurinn

Eins og greint var frá fyrir maraþonið  fer peningurinn í að reisa vatnsturn á Líflandi, búgarði og nokkurs konar landbúnaðardeild við skólann okkar í Búrkína Fasó. Vatnsturninn er nauðsynlegur fyrir það starf, ræktun og landbúnað sem fara mun fram á Líflandi en eins og staðan er núna er vatninu handpumpað úr jörðinni. Búið er að bora fyrir vatni en það er tímafrekt og erfitt að handpumpa. Vatnsturninn kostar um 1.200.000 krónur og pumpan um 200.000 krónur. Sólarsellurnar sem koma ofan á turninn eru nú þegar til þannig að ekki þarf að kaupa þær.

302.000 krónur söfnuðust í gegnum Reykjavíkurmaraþon og aðrar 300.000 krónur höfðu safnast fyrir hlaupið. Því má með sanni segja að núna sé búið að safna fyrir hálfum vatnsturni og það er frábært! Þá er það hinn helmingurinn.

Á Líflandi er nú þegar hafin hænsna- og svínarækt auk þess sem búið er að sá bæði maís og baunum. Markmiðið er að rækta ýmsar tegundir grænmetis á Líflandi auk þess sem byggð verður heimavist á svæðinu. Grein um lífland má lesa hér.

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að fjármagna vatnsturninn geta lagt inn á reikning ABC barnahjálpar: 0537-26-006906 og kennitalan er 690688-1589. Við munum vera ötul við að láta ykkur vita hér og á Facebooksíðunni okkar hvernig söfnunin gengur!

Ljósmyndir birtar með góðfúslegu leyfi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka.