Þakkir til velunnara starfsins - ABC barnahjálp

Þakkir til velunnara starfsins

Þakkir til velunnara starfsins

Nú er árið senn á enda og gaman að líta yfir farinn veg. Árið 2016 er tuttugasta og áttunda ár samtakanna og það var svo sannarlega gott. Við eigum okkur marga velunnara og njótum góðs af.

Bandarísku hjáparsamtökin Go Near Ministry stóðu fyrir söfnun á viðgerð á vatnsdælu á svæði ABC skólans í Namelok. Markmiðið var 1.2 milljónir króna og það náðist og vel það. Íslenskur velunnari sendi nemendum í Úganda gullfallega kjóla og stúlkurnar voru hæstánægðar þegar þær mátuðu þá. Alls söfnuðu 42 hlauparar áheitum fyrir ABC í Reykjavíkurmaraþoninu og 115.000 krónur söfnuðust. Þrjár yngismeyjar komu óvænt á skrifstofu okkar og færðu okkur 13.664 krónur sem þær söfnuðu með því að ganga í hús í Garðabænum. Nemendur í Álfhólsskóla unnu frábært verkefni um ABC undir heitinu „Verum hjálpsöm“ og uppskáru þeir hæstu einkunn fyrir. Nemendur í Brekkubæjarskóla á Akranesi héldu bingó og gáfu ABC ágóðann sem var 30.000 krónur. Ótrúlega flott framtak hjá þessum flottu nemendum.

alt

Að lokum má svo ekki gleyma okkar mikilvægu sendiherrum sem eru nemendur grunnskóla landsins en árlega söfnunin Börn hjálpa börnum fór fram dagana 1. til 17. apríl. Alls söfnuðust 7.893.460 krónur og við erum þessum nemendum óendanlega þakklát.

Fyrirtækið Tengill ehf. gaf ABC 91 tölvu og voru þær sendar til skólans í Búrkína Fasó.

Sjálfboðaliðar heima og utan aðstoðuðu við ýmis verkefni en starfsmenn Íslandsbanka í útibúinu í Mjódd gáfu allir vinnu sína til Nytjamarkaðarins þökk sé verkefni sem heitir Hjálparhönd. Í verkefninu gefst starfsmönnum tækifæri til að vinna einn dag á ári fyrir hjálparstarf að eigin vali. Sjálfboðaliðar ásamt fleirum unnu hart að því að koma ýmsum framkvæmdum í gang í Búrkína Fasó en uppgangurinn á svæðinu er mjög mikill. Þar er m.a. bygging nýs framhaldsskóla langt á veg komin, nýrri vatnsdælu var komið fyrir, sólarsellum fjölgað verulega og fleira.

alt  alt

Við eigum svo sannarlega góða að og við þökkum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Árið 2016 var enn eitt gott ár í sögu ABC barnahjálpar og sem fyrr þökkum við okkar fjölmörgu stuðningsaðilum og velunnurum.