Tökum þátt í plastlausum september! - ABC barnahjálp

Tökum þátt í plastlausum september!

Tólf íslenskar konur standa að árvekniátaki sem kallast plastlaus september og fer fram núna í annað sinn. Átakið er býsna snjallt og miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um þann umhverfisskaðvald sem plast er, sem og að hvetja fólk til að draga úr notkun á einnota plastumbúðum.

Árlega eru framleiddar yfir 400 milljónir tonna af plasti í heiminum og 36% af því fer í umbúðir, að því er fram kemur í nýrri skýrslu UN Environment og skoða má hér. Mál málanna er að plast er ekki hægt að endurvinna nema í annað plast af lélegri gæðum og það sem ekki fer í endurvinnslu fer til urðunar eða flækist um í náttúrunni í þúsundir ára því ekki eyðist það. Af þeim rúmlega 140 milljónum tonna plastumbúða sem til féllu árið 2015 voru 14% endurunnin.

Notaðir eru á bilinu ein til fimm trilljónir plastpoka árlega í heiminum. Væru fimm trilljónir plastpoka hnýttir saman myndu þeir þekja svæði sem samsvaraði tvöfaldri stærð Frakklands!

Plastið, þessi vágestur í náttúrunni, hefur hörmuleg áhrif á lífríkið og haldi áfram sem horfir er talið að í kringum árið 2050 hafi 99% sjófugla innbyrt plast. Plastrusl í sjónum skaðar nú þegar yfir 600 tegundir sjávarlífvera og 15% þeirra dýrategunda sem innbyrða plast eða flækjast í því eru tegundir í útrýmingarhættu. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni sem nefnd var hér að ofan.

ABC og plastlaus september

Hver og einn getur skráð sig í átakið á vefsíðu þess, www.plastlausseptember.is og skoðað þar fjölmargar góðar leiðir til að draga úr plastnotkun. Ein af þeim hugmyndum sem þar koma fram er að nota ekki plastpoka undir vörur heldur margnota poka eða annað sambærilegt. Í þessum mánuði selur ABC barnahjálp hinn stórsniðuga tékkneska netapoka á aðeins 1900 krónur. Þeir fást á skrifstofu okkar í Víkurhvarfi 2 og á nytjamörkuðum okkar í Víkurhvarfi 2 í Kópavogi og að Dalshrauni 13 í Hafnarfirði og rennur ágóði af sölu pokanna beint til starfs okkar sem fram fer í sjö löndum.

Saga netapokans er nokkuð skemmtileg eins og lesa má um á vefsíðu framleiðandans en saga pokans er ekki alveg ný. Hún nær aftur til ársins 1926 en þá fór athafnamaðurinn Vavřín Krčil að leita leiða til að búa til sterkan poka sem bæri mikið og tæki lítið sem ekkert pláss. Framleiðslunni var hætt á tímabili en nú er hann kominn aftur. Á undanförnum árum hafa pokarnir orðið flottari og litskrúðugri, auk þess sem umhverfisvitund fólks hefur gert þá að vinsælli vöru. Netapokinn er mjúkur, flottur, ódýr og tekur lítið pláss. Hann má geyma í handtöskunni eða í vasanum og nota hann aftur og aftur og aftur. Pokinn ber allt að 28 kíló og hann má þvo við 30°C. Netapokinn er úr bómull og 5% spandex, og jú, hann er handunninn!

Við hvetjum ykkur til að taka þátt í plastlausum september, hugsa um náttúruna og um leið má styrkja afar gott málefni með kaupum á náttúruvæna pokanum!